Lögreglan í Manchester hefur greint frá því að sá sem stóð að sprengingunni í Manchester Arena í gærkvöldi, í lok tónleika bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande, hafi látist þegar hann virkjaði sprengjuna sem hann var með á sér á tónleikunum.
Lögregla hefur hækkað tölu látinna úr 19 í 22. Meðal þeirra eru börn. Samtals eru nú 59 sagðir hafa særst í árásinni.
Örvæntingarfullir ættingjar og vinir leita nú þeirra sem ekki hafa látið vita af sér eftir tónleikana, að því er fram kemur í umfjöllun Sky News.
Lögregla segir að rannsóknin miði að því að um hryðjuverk hafi verið að ræða, og voru um strax í gærkvöldi um 400 lögreglumenn sendir á vettvang til að tryggja öryggi á staðnum og halda áfram rannsókn á vettvangi.
Theresa May, forsætisráðherra, hefur þegar fordæmt árásina og segir að hugur bresku þjóðarinnar sé hjá aðstandendum fórnarlamba og þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna sprengingarinnar með einum eða öðrum hætti.