Theresa May,forsætisráðherra Bretlands, upplýsti á fréttamannafundi á níunda tímanum í kvöld að viðbúnaðarstig í Bretlandi hefði verið sett á hæsta stig. Kosningabaráttu hennar, vegna þingkosninga í sumar, hefur verið frestað.
Samtals létust 22 og um 60 slösuðust í sjálfsmorðsárás sem beindist gegn börnum og unglingum á tónleikum Ariöndu Grande, í Manchester Arena í gærkvöldi. Hótanir um frekari árásir hafa borist, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Fimm þúsund manna lið hersins hefur verið kvatt til aðstoðar, vegna hækkunar á viðbúnaðarstigi. May segir að hugsanlega hafi hópur manna staðið að árásinni í Manchester, en málin eru þó enn í rannsókn og eru allar vísbendingar sem berast lögreglu kannaðar.