Draupnir Fjárfestingarfélag hefur selt 2,1 milljón hluti í Skeljungi fyrir 6,34 krónur á hlut. Því fékk félagið um 13,3 milljónir króna fyrir hlutinn. Draupnir er í 98 prósent eigu Jóns Diðriks Jónssonar, stjórnarformanns Skeljungs. Þetta kemur fram í tilkynningu um viðskipta fjárhagslega tengds aðila sem send var til Kauphallar fyrr í dag.
Draupnir á enn töluvert að bréfum í Skeljungi, eða 19,3 milljónir hluti. Virði þeirra miðað við gengi Skeljungs í dag er um 121 milljónir króna. Bréf Skeljungs hafa lækkað um 1,73 prósent það sem af er degi og kosta nú 6,25 krónur á hlut. Önnur fyrirtæki sem hafa lækkað skarpt í dag eru olíufélagið N1, sem hefur lækkað um 2,19 prósent, og Hagar, sem hafa lækkað um 2,17 prósent.
Stærstu eigendur Skeljungs eru SÍA II sjóðurinn með 14,53 prósent hlut, Arion banki með 7,99 prósent hlut, Gildi lífeyrissjóður með 7,12 prósent hlut, LSR með 5,41 prósent hlut og Frjálsi lífeyrissjóðurinn með 5,03 prósent hlut.
Greint var frá því í upphafi viku að Skeljungur og hluthafar Basko ehf. hafi sammælst um að hefja samningaviðræður um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Basko, á grundvelli samkomulags um helstu samningsskilmála. Kaupverðið er 2,8 milljarðar króna, með yfirtöku skulda, og greitt með hlutabréfum í Skeljungi.
Kaupin eru háð ýmsum forsendum og fyrirvörum beggja samningsaðila, að því er sagði í tilkynningu. Markaðsvirði Skeljungs er nú 13,3 milljarðar, og því er um hlutfallslega stóra viðbót að ræða í rekstur félagsins.