Söluferli Kaupþings á Arion banka er í uppnámi þar sem vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital Management Group, sem tilkynnt var um í mars síðastliðnum, að keypt hefði 6,6% hlut í Arion banka af Kaupþingi, hefur ekki lagt fram beiðni til Fjármálaeftirlitsins um að fá heimild til að fara með virkan eignarhlut í bankanum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Och-Ziff er einn stærsti eigandi
Kaupþings, en að undanförnu hefur staða sjóðsins versnað verulega og lánshæfiseinkunn færð í ruslflokk, auk þess sem fjárfestar hafa tekið fé frá sjóðnum í stórum stíl, eins og Kjarninn greindi frá í byrjun mánaðarins.
„Heimildir Morgunblaðsins herma að það sé komið til vegna þess að fyrirtækið telji alþjóðlega orðsporsáhættu felast í því ef Fjármálaeftirlitið hafnar beiðninni. Och-Ziff er skráð á markað í kauphöllinni í New York og er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði sérhæfðrar eignastýringar. Fyrirtækið hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar á síðustu misserum, meðal annars í tengslum við gríðarháar sektargreiðslur sem fyrirtækið var dæmt til að greiða vegna mútuhneykslis sem teygir sig til fimm Afríkuríkja. Bandaríska dómsmálaráðuneytið sektaði fyrirtækið um 213 milljónir Bandaríkjadala,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Mun fyrirtækið hafa fengið óformleg skilaboð frá íslenskum eftirlitsaðilum um að hætta væri á að það yrði ekki metið hæft til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Aðrir eigendur Arion banka eru Kaupskil ehf., félag í eigu Kaupþings, sem á 57,9 prósent hlut, íslenska ríkið 13 prósent, vogunarsjóður í eigu Taconic Capital Advisors 9,9 prósent, Attestor Capital LLP 9,9 prósent og Goldman Sachs 2,6 prósent.