Jón Ásgeir Jóhannesson segir að Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafi sýnt af sér það sem honum finnst vera „óheiðarleiki á hæsta stigi þegar rannsakendur halda undan gögnum sem benda til sakleysis þeirra sem eru ákærðir. Í Bandaríkjunum gætu slíkir rannsakendur átti yfir höfði sér fangelsisdóma.“
Þetta kemur fram á heimasíðu sem Jón Ásgeir setti nýverið upp til að koma á framfæri málflutningi sínum í ýmsum málum sem að honum snúa. Ýmsir aðrir athafnamenn sem hafa þurft að takast á við umdeild mál hafa einnig farið sömu leið. Nægir þar að nefna Björgólf Thor Björgólfsson og Ólaf Ólafsson. Auk þess héldu ýmsir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings úti síðu um nokkurt skeið, en hún hefur ekki verið uppfærð í nokkra mánuði.
Ástæða þess að Jón Ásgeir skrifar um Grím nú er viðtal sem yfirlögregluþjónninn fór í á RÚV um liðna helgi. Þar var hann spurður um opið bréf sem Jón Ásgeir birti í Fréttablaðinu, dagblaði sem er að mestu í eigu eiginkonu hans, fyrir þremur árum síðan. Í bréfinu sakaði Jón Ásgeir Grím og annan lögreglumann, Svein Ingiberg Magnússon, um óheiðarleika. Jón Ásgeir sagði mennina tvo hafa farið fremsta í flokki í rannsóknum á sér á undanförnum árum. Orðrétt sagði í bréfinu: „Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarlegir lögreglumenn fyrirfinnist ekki hér á landi.“
Grímur sagði að hann hafi orðið ósáttur þegar ásökun Jóns Ásgeirs var lögð fram. „Mér líkaði það ekki. Hvorki ég né vinnufélagi minn erum óheiðarlegir og mér líkar það ekki vel þegar slíkt er sagt opinberlega.“
Með svargrein sinni birtir Jón Ásgeir ýmis gögn sem hann telur að rannsakendum hafi borið að leggja fram við þingfestingu á Aurum-málinu svokallað, þar sem hann er einn ákærðra. Það mál er enn fyrir dómstólum.