Hæstiréttur Íslands hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í Stím-málinu vegna vanhæfis dómara, Sigríðar Hjaltested. Því þarf að endurflytja málið fyrir héraðsdómi.
Þetta er þriðja hrunmálið sem þarf að endurtaka sökum vanhæfis dómara, að því er fram kemur á vef RÚV. Lárus Welding var dæmdur í fimm ára fangelsi í málinu og Jóhannes Baldursson og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hlutu líka dóma. Lárus var forstjóri Glitnis, Jóhannes var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá bankanum og Þorvaldur var forstjóri Saga Capital fjárfestingabanka.
Þeir áfrýjuðu allir til Hæstaréttar.
Einn af þremur dómurum í málinu var Sigríður Hjaltested héraðsdómari, en skömmu eftir að dómur féll í málinu voru Lárus og Jóhannes ákærðir í öðru máli fyrir markaðsmisnotkun. Sigríður átti að vera dómari í því máli en ákvað að lýsa sig vanhæfa. Það gerði hún vegna þess að meðal gagna málsins væru gögn sem tengdust fyrrverandi eiginmanni hennar og barnsföður, vegna starfa hans hjá Glitni. Fyrrverandi eiginmaðurinn hafði stöðu sakbornings í öðru máli sem var til meðferðar hjá Héraðssaksóknara vegna starfa sinna fyrir bankann.
Þegar hún lýsti sig vanhæfa benti saksóknari í Stím-málinu á að þessi tengsl kæmu líklega til skoðunar við áfrýjun þess máls fyrir Hæstarétti. Verjendur kröfðust þess að dómurinn yrði felldur úr gildi vegna þess að Sigríður hefði verið vanhæf í Stím-málinu líka, og á það féllst Hæstiréttur í dag.
Hæstiréttur segir að málin tvö séu hliðstæð. Tengsl og aðstæður í málunum tveimur séu í öllu verulegu sambærirlegar og Sigríður hefði átt að víkja sæti.