Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, 2018 til 2022, var samþykkt á Alþingi nú um klukkan tvö með 32 atkvæðum stjórnarliða gegn 31 atkvæði stjórnarandstöðu, en mikil gagnrýni kom fram á áætlunin af hálfu stjórnarandstöðunnar.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði í ræðu sinni að áætlunin væri í boði svikinna kosningaloforða Viðreisnar - sem ætti einungis eftir að fara aftur inn í Sjálfstæðisflokkinn - og Bjartrar framtíðar, sem leyfðu Sjálfstæðisflokknum að leggja stefnu sína um að mola niður innviði, skera niður útgjöld til mennta- og heilbrigðismála, og meira til.
Björn Leví Gunnarsson, frá Pírötum, sagði áætlunina vera algjörlega ófullnægjandi, og að á henni væri ekki hægt að byggja, eins og fjölmargar athugasemdir við áætlunina á málsmeðferðartíma í þinginu væru til vitnis um.
Tillaga Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, um skipan 15 dómara við Landsrétt, var ekki tekin fyrir í atkvæðagreiðslu í dag, það verður gert í dag. Þingfundur hefur verið boðaður klukkan 11:00.
Mikill titringur var í þingsölum vegna þessa máls í gær, en meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, það er fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar, samþykktu tillögu dómsmálaráðherra, en stjórnandstaðan var að móti. Þegar líða tók á kvöldið og inn í nóttina, þá var málið rætt mikið milli forystufólks flokkanna.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans, þá mat hæfisnefnd um mat á umsækjendum í stöðu dómara við Landsrétt Davíð Þór Björgvinsson, Sigurð Tómas Magnússon og Ragnheiði Harðardóttur hæfust.
Samkvæmt lista hæfisnefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., sem hefur talið tillögu dómsmálaráðherra lögbrot - líkt og Lögmannafélag Íslands - númer 14 á listanum. Einn þeirra sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, gerir tillögu um að verði á meðal 15 dómara við Landsrétt er Jón Finnbjörnsson en hann er númer 30 á lista hæfisnefndarinnar. Þá er Eiríkur Jónsson númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, en hann er ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara.
Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson, ásamt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Jóni Höskuldssyni hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.
Þau 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara við Landsrétt eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.