Aðgerðarhópur ríkisstjórnarinnar metur svo að með sértækum aðgerðum muni jafnvægi nást á húsnæðismarkaði á árunum 2019 til 2020. Markmið aðgerðarhópsins er að byggja um 2.000 íbúðir á næstu árum á ríkislóðum. Þetta kom fram á blaðamannafundi hópsins sem haldinn var í húsnæði Íbúðarlánasjóðs fyrr í dag.
Metið var svo að þörf væri á allt að 9.000 nýjum íbúðum á næstu þremur árum. Vill aðgerðarhópurinn bregðast við þessarri þörf með framboðshvetjandi áhrifum, en þó telur hann mikilvægt að fara ekki of geyst af stað í uppbyggingu, en meta þurfi jafnóðum þörfina fyrir húsnæði.
Stefnt er að því að einfalda regluverk og framkvæmd skipulagsmála. Reynt verði að komast til móts við eigendur stórra húsa þannig að þeir geti án verulegrar skriffinsku eða kostnaðar breytt notkun húsa sinna og leigt frá sér íbúðir. Líka verði unnar tillögur um breytingar á lögum um mannvirki og tilteknar breytingar á byggingarreglugerð.
Einnig voru möguleikar viðraðir um hvernig langtímaleiga á húsnæði yrði gerð fýsilegri. Nefndar voru hugmyndir um skattalega hvata þess efnis, tómthúsagjald og bann við skammtímaleigu á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Fræðsla til leigusala og leigjenda var líka nefnd, en gert er ráð fyrir því að aukin þekking beggja aðila á skyldum þeirra muni leiða til þess að fleiri íbúðir skili sér í langtímaleigu.
Aðgerðarhópurinn lagði áherslu á að húsnæðisáætlanir sveitarfélaga verði samræmdar, en helstu niðurstöður úr gerð áætlana sveitarfélaga verða kynntar á Húsnæðisþingi í október. Þar að auki verður ríkislóðum á höfuðborgarsvæðinu komið í aukið not, en markmið aðgerðarhópsins er að byggja um 2.000 íbúðir á þeim á næstu árum. Til skemmri tíma verður litið til Landhelgisgæslureits og til lengri tíma Veðurstofureits, sjómannaskólareits, en einkum Keldna.
Að lokum var viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að koma ríkislóðum í aukið not undirrituð af Benedikti Jóhannessyni og Degi B. Eggertssyni. Dagur hrósaði sérstaklega ríkisstjórninni fyrir að „ganga í málið og klára þetta”. Við því svaraði Benedikt: „Engar nefndir, bara efndir”.