Bill Gates, annar stofnenda Microsoft og einn ríkasti maður heims, með eignir upp á 88 milljarða Bandaríkjadala, segir ákvörðun Donalds Trumps um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu vera sorglega og slæma fyrir umheiminn.
Hann segir að ákvörðun Trumps muni með engu móti stöðva áform sjóðsins Breakthrough Energy Ventures, sem hann setti á fót í París, en um er að ræða stærsta fjárfestingasjóð heims á sviði nýsköpunar í umhverfisvænni tækni.
Sjóðurinn hefur fjárfestingagetu upp á 100 milljarða Bandaríkjadala, og segir Gates að stefnan sé sett á að auka enn frekar fjárfestingar á næstunni.
Forstjórar tæknirisana Apple, Alphabet (Google), Microsoft og Tesla Motors voru fljótir að tjá sig um ákvörðun Trumps, og sögðu hana engu breyta um það að fyrirtækin ætluðu sér að leggja sitt af mörkum til að markmið Parísarsamkomulagsins muni nást.
Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, ákvað að fara úr ráðgjafaráði Trump, þegar kemur að atvinnumálum og nýsköpun, um leið og ákvörðun hans lá fyrir. Hann sagði að ákvörðun væri slæm fyrir Bandaríkin og slæm fyrir heiminn allan. „Loftslagsbreytingar eru raunverulegar,“ sagði hann á Twitter svæði sínu.
Indverjar riðu á vaðið í gær, og tilkynntu að stefnan sé nú sett á að selja aðeins rafdrifna bíla árið 2013, eða eftir 13 ár. Það er risavaxið verkefni enda Indland næst fjölmennasta ríki heims með 1,3 milljarða íbúa.
Robert Iger, forstjóri Walt Disney, sagði sig einnig strax úr ráðinu, og mótmælti ákvörðun Trumps. Darren Woods, forstjóri Exxon Mobile, stærsta skráða olíufélags í heimi, sendi Trump bréf og bað hann um að halda Bandaríkjunum inn í Parísarsamkomulaginu.
Úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu tekur fjögur ár og tekur hún gildi daginn eftir næstu forsetakosningar, eins og rakið er í grein Þrastar Freys Gylfasonar stjórnmálafræðings.