Búið er að loka Lundúnabrúnni í miðborg London vegna þess sem kallað er alvarlegt atvik. Hvítum sendiferðabíl var ekið á gangandi vegfarendur á brúnni, og að auki hefur verið greint frá því að skothvellir hafi heyrst og að fólk hafi verið stungið með hníf. Fréttir eru enn óljósar.
Sky News fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að um hryðjuverk sé að ræða.
Lögregla hefur staðfest að bíl hafi verið ekið á gangandi vegfarendur, að fólk hafi verið stungið á Borough-markaðnum og að nú séu lögregluaðgerðir í Vauxhall.
Vitni segja að lögregla hafi sagt fólki á brúnni að hlaupa eins og fætur toguðu í vestur af brúnni.
Gríðarlegur fjöldi lögreglumanna er á staðnum, líkt og sjá má í beinni útsendingu Sky News hér að neðan.