Sex eru látnir og að minnsta kosti 48 eru særðir eftir hryðjuverkaárás í London í gærkvöldi. Nokkrir eru alvarlega slasaðir.
Hvítum sendiferðabíl var ekið á gangandi vegfarendur á Lundúnabrúnni um klukkan tíu í gærkvöldi, og svo hlupu þrír menn út úr bílnum og stungu fólk með hnífum. Að sögn lögreglu voru mennirnir þrír klæddir gervisprengjuvestum. Mennirnir voru allir skotnir til bana af lögreglu í gærkvöldi, átta mínútum eftir að henni hafði fyrst verið gert viðvart um árásina.
Lögregla óskar nú eftir því að fólk sem gæti átt myndir eða myndskeið af mönnunum þremur afhendi efnið. Þá hefur verið greint frá því að lögreglueftirlit verði aukið næstu daga, en á fimmtudag fara fram þingkosningar í Bretlandi.
Sadiq Khan, borgarstjórinn í London, sagði í yfirlýsingu í nótt að þetta væri heigulsleg árás á saklausa borgara og ferðamenn sem hafi verið að njóta borgarinnar á laugardagskvöldi. Hann fordæmdi árásina. Það gerði Theresa May forsætisráðherra líka.
Í kvöld eiga að fara fram minningar- og styrktartónleikar fyrir fórnarlömb hryðjuverksins í Manchester, þar sem 22 létust á dögunum eftir tónleika með Ariönu Grande. Tónleikarnir munu fara fram þrátt fyrir árásirnar í London.
Sendiráð Íslands í London fylgist með atburðunum og biður Íslendinga í London um að láta vita af sér.