Sjóðir á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management keyptu þorra þeirra bréfa í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) sem Grandier ehf., félag í eigu Sigurðar Bollasonar, Þorsteins Gunnars Ólafssonar og Don McCarthy, seldu á fimmtudag í síðustu viku.
Um var að ræða samtals 8,01 prósent hlut í félaginu, en Grandier var næst stærsti eigandi VÍS áður en eigendur félagsins ákváðu að selja allan hlut sinn. Sjóðir í stýringu Eaton Vance eru nú samtals næst stærstu hluthafar VÍS með 8,76 prósent hlut. Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa aðrir hluthafar fengið þær skýringar á ákvörðuninni að Don McCharthy sé að losa um eignir á Íslandi vegna veikinda.
Grandier hagnast vel á viðskiptunum
Tveir sjóðir í stýringu hjá Eaton Vance, Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage, hafa verið að kaupa upp hluti í VÍS af miklum móð á undanförnum misserum. Þeir komu inn á lista yfir 20 stærstu hluthafa tryggingafélagsins í mars síðastliðnum og voru skráðir með samtals 3,53 prósent hlut í félaginu fyrir viðskiptin á fimmtudag. Gera má ráð fyrir því að sjóðir í stýringu Eaton Vance séu því orðnir á meðal allra stærstu eigenda VÍS eftir viðskiptin í vikunni, en Lífeyrisjóður verslunarmanna er stærsti eigandinn með 9,67 prósent. Heimildarmenn Kjarnans segja þó að Eaton Vance-sjóðirnir hafi ekki keypt allan hlut Grandier, en verið langstærstir í þeim kaupum.
Miðað við gengi bréfa í VÍS í lok dags á miðvikudag þá hefur Grandier fengið um tvo milljarða króna fyrir bréf sín. Grandier keypti bréfin sín í mars í fyrra, þegar gengið í VÍS var á bilinu átta til níu krónur á hlut. Virði hlutarins var því á þeim tíma frá rúmlega 1,4 milljarði króna til 1,6 milljarðs króna. Grandier er í eigu samnefnds félags í Lúxemborg. Því má ætla að fjármunirnir sem fengust fyrir sölu bréfanna muni fara til þess félags. frá því að Grandier keypti upphaflega í VÍS hefur íslenska krónan styrkst um rúmlega 20 prósent gagnvart evru. Því fást mun fleiri evrur fyrir krónurnar nú en þá. Gera má ráð fyrir að gengishagnaður Grandier sé um 400 milljónir króna. Því hafa fjárfestarnir hagnast ansi vel á fjárfestingu sinni á því rúma ári sem þeir voru stórir eigendur í VÍS.
Umfangsmiklir á Íslandi
Samkvæmt tilkynningu sem barst Kauphöll í síðustu viku eiga fjárfestingasjóðir á vegum Eaton Vance Management nú 8,76 prósent hlut í VÍS. um er að ræða sjö mismunandi sjóði.
Þeir eru Global Opportunities Portfolio, Global Macro Portfolio, Global Macro Absolute Return Advantage Portfolio, Global Macro Capital Opportunities Portfolio, JNL/Eaton Vance Global Macro Absolute Return Advantage Fund, Pacific: IGPACSEL/Pacific Select Fund Global Absolute Return Fund og PF Global Absolute Return Fund.
Sjóðir í stýringu Eaton Vance hafa verið að kaupa íslensk hlutabréf frá því seint á árinu 2015. Þeir eiga hluti í Símanum, Reitum, Eimskipum, Reginn, HB Granda, Sjóvá, Ni, Högum, Eimskip, Icelandair og Marel. Markaðsvirði þeirra hluta er vel á annað tug milljarða króna. Eaton Vance sjóðirnir hafa hagnast vel á þessu, bæði vegna þess að flest bréfin hafa hækkað umtalsvert í verði og vegna þess að íslenska krónan hefur styrkst um vel yfir 20 prósent gagnvart Bandaríkjadal frá því að fjárfesting þeirra hérlendis hófst.
Sjóðir Eaton Vance eru líka á meðal stærstu aflandskrónueigenda sem eftir eru hérlendis. Fyrir um ári áttu þeir, ásamt sjóðum fyrirtækisins Autonomy Capital LP, um 30 prósent af eftirstandandi aflandskrónuhengju, sem hefur minnkað umtalsvert síðan. Eaton Vance var einnig mjög umfangsmikið í vaxtamunaviðskiptum hérlendis á undanförnum árum.