Búið er að fella niður kröfu um starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd þegar fólk leigir út íbúðir eða sumarbústaði í heimagistingu. Breytingin tekur gildi 1. júlí næstkomandi, og þá þarf aðeins að skrá fasteignina hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eða á miðlægu vefsvæði sé það fyrir hendi, og greiða átta þúsund krónur fyrir það.
Breytingin lýtur eingöngu að heimagistingu, sem er gisting á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign sem hann hefur persónuleg not af, til dæmis sumarbústað. Hámarks leigutími eru samtals 90 dagar á ári.
Þeir sem vilja leigja út heimili sitt í 90 daga eða skemur þurfa því aðeins að skrá fasteignina í stað þess að sækja um starfsleyfi. Áfram þarf að greiða skatta af leigutekjunum eins og áður.
Ekki er búið að birta lögin á vef Alþingis, en í frumvarpinu sem Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram í mars síðastliðnum kemur fram að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að bæta viðmót og aðgengi að stjórnsýslu og í því ljósi sé mikilvægt að endurskoða og leggja mat á þörfina fyrir að tiltekin starfsemi sé háð starfsleyfi. Því sé lagt til að dregið verði úr vægi starfsleyfisskyldu og miðað við að einungis verði gerð krafa um að starfsemi sé starfsleyfisskyld þegar þess er þörf með tilliti til umfangs og eðlis starfseminnar. Því hafi ráðherra heimild til að kveða á um að ákveðin starfsemi sé háð skráningarskyldu frekar en starfsleyfisskyldu.