James Comey, fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, kemur fyrir þingnefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings í dag klukkan 14:00 að íslenskum tíma.
Hér að ofan er bein útsending frá yfirheyrslunni á YouTube.
Comey verður eiðsvarinn og svarar spurningum þingmanna um afskipti Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, af rannsókn lögregluyfirvalda á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa í stjórn Trumps.
Comey birti í gær skriflega lýsingu á því sem henn kemur til með að ræða um í yfirheyrslu þingsins í dag. Þar kemur fram að Trump hafi haft bein afskipti af rannsókn FBI og farið fram á að hún yrði látin niður falla.
„Ég vona að þú getir séð þér fært að sleppa þessu og látið Flynn vera. Hann er góður náungi,“ segir Comey að Trump hafi sagt. Einnig: „Forsetinn sagði, „Ég þarf hollustu, ég býst við hollustu.“ Ég hreyfði mig ekki og talaði hvorki né breytti andlitssvipnum mínum á nokkurn máta, í þeirri vandræðalegu þögn sem síðan fylgdi.“
Nánar má lesa um skriflega lýsingu Comey hér á vefnum.
Comey segist hafa skrifað samviskusamlega hjá sér ágrip af fundum sínum með forsetanum. Hann mun meðal annars ræða þau minnisblöð í yfirheyrslunni.
Alvarlegar ásakanir
Allar vísbendingar benda til þess að Donald Trump hafi gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar. Fréttaskýrendur og álitsgjafar vestanhafs hafa tekið sterkt til orða þegar ásökunum er lýst og segja sumir Watergate-málið svokallaða sem kom upp á áttunda áratug síðustu aldar blikna í samanburði.
Comey mun að öllum líkindum ekki geta sagt margt um rannsóknina sjálfa eða þau tengsl sem alríkislögreglan rannsakar nú á milli kosningabaráttu Donalds Trump og Rússa. Comey mun hins vegar gefa innsýn í samskipti sín við forsetann sem rak hann úr stöðu yfirmanns FBI.
Trump tvítar
Gert er ráð fyrir að Donald Trump muni fylgjast með yfirheyrslunni á skrifstofu sinni og að hann muni tjá hug sinn á meðan yfirheyrslunni stendur. Hér má lesa Twitterskilaboð Trumps.