Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, undirritaði skipunarbréf 15 dómara við Landsrétt sem Alþingi hafði samþykkt. Guðni hafði verið hvattur til þess að hafna undirritun skipunarbréfanna í undirskriftasöfnun.
Sigríður Á. Anderssen dómsmálaráðherra tilnefndi 15 einstaklinga sem dómara við nýtt millidómsstig, Landsrétt, í maí. Umdeilt var að hún ákvað að hunsa röðun á hæfislista sem unninn hafði verið af sérstakri dómnefnd um hæfi umsækjenda.
Guðni segir í yfirlýsingu sem barst fjölmiðlum í morgun að undirritun hans sé í takt við formlegar og sjálfsagðar stjórnarathafnir.
Skorað var á Guðna að staðfesta ekki stjórnarathafnir Alþingis vegna þess að ágreiningur ríkir um hvort rétt hafi verið staðið að skipan dómaranna. Alþingi greiddi atkvæði um alla 15 dómarana en til tók ekki skipan hvers og eins. Guðni bendir á efasemdaraddir um hvort þetta hafi verið í samræmi við lög.
Guðni skrifar í yfirlýsingu sinni að honum hafi þótt sjálfsagt að kynna sér þau sjónarmið sem lægju að baki málflutningi þeirra sem hvöttu hann til að staðfesta ekki skipan dómaranna.
„[...]enda engin brýn stjórnskipuleg nauðsyn til þess að undirrita skipunarbréf dómaraefnanna um leið og mér bærust þau. Jafnframt er þess að geta að þótt atbeini forseta sé formlegur í stjórnskipulegu tilliti má aldrei líta svo á að sá atbeini sé þess vegna sjálfvirkur. Þannig eru þess dæmi að forseta séu afhent skjöl til undirritunar þar sem handvömm hefur orðið við undirbúning og frágang. Þarf þá að vinna þau á ný og útbúa til undirritunar,“ skrifar Guðni.
Eftir að hafa óskað eftir upplýsingum um málsatvik þá barst forsetanum svar frá Alþingi í gær. Þar segir Guðni að bent hafi verið á að dómsmálaráðherra hafi lagt tillögur sínar fyrir Alþingi í samræmi við lög.
„Í samtölum sem forseti Alþingis átti við formenn og forystufólk þingflokka um undirbúning atkvæðagreiðslunnar kom fram að þingmenn flokkanna hefðu allir ákveðið að greiða atkvæði með sama hætti um hvern einstakling í töluliðum 1-15 á þingskjalinu,“ skrifar Guðni enn fremur.
Guðni vitnar svo í lokaorð greinargerðar skrifstofu Alþingis: „Niðurstaða skrifstofunnar er því sú að atkvæðagreiðslan sé fyllilega lögmæt og í samræmi við lögbundna og venjubundna afgreiðsluhætti Alþingis, svo svarað sé beint erindi skrifstofu forseta Íslands. Meginhugmynd og krafa í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði dómstólalaga er að Alþingi geti tekið afstöðu til hvers dómaraefnis, hafnað einstökum tillögum ráðherra, en standi ekki frammi fyrir þeim kosti að samþykkja allar tillögurnar eða hafna öllum. Við afgreiðslu málsins á Alþingi er þessi hugmynd virt, frágangi málsins á þingskjali og atkvæðagreiðslu hagað þannig að við þeirri kröfu dómstólalaga mætti verða.“
Guðni segist hafa svo tekið afstöðu til málsins með hliðsjón af þeim upplýsingum sem hann hafði aflað sér. Hann hafi þá komist „að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslunnar 1. júní og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.“