Hagvöxtur fyrsta ársfjórðungs 2017 mældist um 5%, samkvæmt tilkynningu Hagstofu fyrr í dag. Er það mesti vöxtur á fyrsta ársfjórðungi frá 2008. Hagvöxturinn er að mestu leyti drifinn áfram af einkaneyslu, sem jókst um 7%, og útflutningi, sem jókst um 5% á sama tímabili.
Í greiningu Arion Banka kemur fram að þrátt fyrir mikinn hagvöxt hafi fjárfesting og utanríkisverslun verið undir væntingum. Litla fjárfestingu má að mestu leyti rekja til samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu á tímabilinu sem var um 2%. Mikill vöxtur í byggingu íbúða dugði ekki til að halda uppi væntri fjárfestingu, en íbúðafjárfesting jókst um 29% á tímabilinu. Einnig hafi verið búist við meiri utanríkisverslun, en innflutningur og útflutningur var minni en spáð var.
Líkt og á síðustu misserum stendur ferðaþjónustan undir útflutningsvextinum, en þjónustuútflutningur jókst um 19,2% sem er mesti vöxtur á fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2007. Vöxturinn helst í hendur við mikla fjölgun ferðamanna sem komu til landsins, en fjöldi þeirra á fyrsta ársfjórðungi í ár var 452 þúsund, sem er um 54% aukning frá sama tíma í fyrra. Hins vegar hafi vöruútflutningur dregist saman, en verkfall sjómanna gæti hafa spilað stórt hlutverk þar.