James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI sem Donald Trump forseti Bandaríkjanna rak 9. maí síðastliðinn, segist ekki hafa neinar efasemdir um að rússnesk stjórnvöld hafi skipt sér af og haft áhrif á forsetakosningarnar vestanhafs í fyrra.
Þrátt fyrir afskipti Rússa segist Comey vera sannfærður um að engum atkvæðum í kosningunum hafi verið breytt.
Þessu svaraði hann þegar hann var spurður í yfirheyrslu leyniþjónustunefndar bandaríska þingsins sem stendur nú yfir í Washington DC.
Donald Trump óskaði aldrei beinlínis eftir því að rannsóknin á afskiptum Rússa yrði hætt, segir Comey. Trump sagðist hins vegar „vona“ að hægt væri að láta málið niður falla. Comey segir það ekki vera sitt að ákvarða hvort forsetinn hafi brotið lög.
Hvað hefur komið fram
- Comey segir brjóstvit sitt hafa sagt honum að Donald Trump hafi viljað fá eitthvað gegn því að Comey fengi að halda starfi sínu sem forstjóri FBI. Comey og Trump funduðu níu sinnum síðan Trump var kjörinn forseti í nóvember síðastliðnum. Comey telur það hafa verið óvenjulega margir fundir, enda hafði hann aðeins hitt Barack Obama mun sjaldnar á mun lengra tímabili.
- Forstjórinn fyrrverandi segist hafa byrjað að skrifa ítarlegar lýsingar á fundum sínum með Donald Trump eftir að hafa hitt hann í fyrsta sinn. Spurður hvers vegna hann taldi það hafa verið mikilvægt svarði hann að manngerð Trumps auk fleiri óvenjulegra hluta hafi gert það að verkum. Comey segist ekki hafa skrifað minnisblöð um aðra fundi með yfirmönnum sínum og að hann hafi aldrei gert það áður, hvorki með George W. Bush eða Barack Obama.
- Comey segist hafa ritað minnisblöð sín vegna þess að hann hafi vitað að hann þyrfti einhvern tíma að verja sjálfan sig og stofnunina sem hann starfaði fyrir.
- Donald Trump sjálfur var aldrei til rannsóknar á meðan Comey var forstjóri FBI.
- Comey segist hafa hafa haft áhyggjur af því að Trump myndi ljúga um efni einkafunda þeirra tveggja.
- Comey segist ekki vita hvers vegna hann var rekinn úr stöðu sinni. Hann segist halda að það hafi verið vegna rannsóknar FBI á afskiptum Rússa.
- Comey segist hafa skilið ósk Trumps um að FBI myndi hætta rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa, sem skipun. Skipuninni fylgdi hann ekki eftir.
Yfirheyrslan stendur enn yfir. Kjarninn mun fjalla um yfirheyrsluna og eftirmála hennar í dag og á næstu dögum.