Theresa May, leiðtogi Íhaldsmanna í Bretlandi, hefur náð samkomulagi við norður-írska sambandsflokkinn um ríkisstjórnarsamstarf.
Íhaldsflokkurinn náði ekki meirihluta á þinginu í kosningunum haldnar voru í Bretlandi í gær og þurfa þess vegna að mynda minnihlutastjórn eða samsteypustjórn.
Frá þessu er greint á vef breska dagblaðsins The Guardian.
Theresa May er sögð hafa óskað eftir fundi með Elísabetu drottningu í dag þar sem hún mun óska eftir umboði til þess að mynda nýja ríkisstjórn íhaldsflokksins með stuðningi lýðræðislega sambandsflokksins í Norður-Írlandi. May, forsætisráðherra í meirihlutastjórn Íhaldsmanna fyrir kosningarnar, mun þess vegna leiða minnihlutastjórn eftir kosningarnar.
Þegar kunngjört hefur verið um 649 af 650 sætum í breska þinginu þá hefur Íhaldsflokkurinn 318 sæti (326 sæti þarf til að mynda hreinan meirihluta), Verkamamannaflokkurinn 261 sæti. Sambandsflokkur Norður-Írlands hefur 10 sæti.
Samtal um samstarfið hófst, samkvæmt heimildum The Guardian, seint í nótt. „Við viljum að það sé ríkisstjórn. Við höfum unnið vel með May. Hinn kosturinn er óþolandi,“ er haft eftir heimildarmanni innan írska sambandsflokksins.
Samstarf Íhaldsmanna og sambandssinna í Norður-Írlandi mun setja samningaviðræður um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í annað ljós. Sambandssinnar hafa gert þá kröfu að Norður-Írland fái ekki „sérstaka stöðu“ innan Bretlands eftir að hafa sagt skilið við ESB.
Samsbandssinnar hafa áhyggjur af því að ef Norður-Írland fái „sérstaka stöðu“ innan Bretlands eftir Brexit þá muni það á endanum kljúfa Norður-Írland enn frekar frá Bretlandi. Sinn Féin, þjóðarflokkur Norður-Írlands, hefur gert það að sínu helsta umfjöllunarefni að Norður-Írar fái sérstaka stöðu innan breska sambandsins eftir Brexit.