Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagðist á blaðamannafundi í garði Hvíta hússins í dag styðja 5. grein sáttmálans um Atlantshafsbandalagið, NATO.
Frá þessu er greint á vef fréttastofunnar Reuters.
Trump hefur allt frá því að hann var valinn forsetaefni repúblikana fyrir forsetakosningarnar í fyrra kastað rýrð á gildi sáttmálans og sagt önnur aðildarríki verða að fara að greiða meira til varnarmála en þau gera nú þegar.
Samkvæmt þessari fimmtu grein NATO-sáttmálans þá jafngildir árás á eitt aðildarríki NATO árás á þau öll. Varnir Íslands eru til dæmis tryggðar í þessum sáttmála, enda reiða Íslendingar sig eingöngu á heri annara landa ef óvinaher ræðst hér á land.
NATO-aðild hefur hins vegar mun skýrari þýðingu fyrir löndin austast í Evrópu, og landamæraríkin við Rússland. Eistrasaltsríkin þrjú hafa undanfarin ár óttast innrás Rússa í síauknum mæli. Orð Donalds Trump um NATO hafa ekki sefað þann ótta.
Trump lýsti því síðast á fundi þjóðarleiðtoga NATO-ríkja í Brussel að önnur NATO-ríki yrðu að borga sinn skerf til varnarmála ef að Bandaríkin ættu að koma þeim til varnar ef eitthvað bjátaði á.
„Ég er að skuldbinda Bandaríkin við 5. greinina og að sjálfsögðu erum við hér til þess að vernda,“ sagði Trump og hélt áfram: „og það er ein ástæða þess að ég vil láta fólk vita að við eigum mjög, mjög sterkan her með því að borga eins mikið og við gerum til varnarmála.“
„En já, algjörlega þá mundi ég virkja 5. greinina.“