Breiðholtið er það hverfi Reykjavíkur sem sér hvað mest hækkun fasteignamats fyrir árið 2018 miðað við árið 2017. Í póstnúmeri 111, þar sem oft kallast Efra Breiðholt, er hækkun fasteignamatsins 20,8 prósent að miðgildi. Í póstnúmeri 109, sem oft er kallað Neðra Breiðholt og Seljahverfi, er hækkunin 20,6 prósent að miðgildi.
Ef litið er til allra póstnúmera í Reykjavík er meðlhækkun fasteignamatsins 17,2 prósent á milli ára. Á landsvísu er hækkunin aðeins minni eða 13,8 prósent. Hækkunin er svo nokkuð mismunandi eftir landsvæðum. Heildarmat fasteigna á Íslandi verður 7.288 milljarðar króna samkvæmt nýju fasteignamati árið 2018.
Fasteignamatið hækkar á 98,3 prósent allra skráðra eigna en lækkar á 1,7 prósent eigna frá fyrra ári.
Öll hverfi í höfuðborginni hækka
Fasteignamatið hækkar í öllum póstnúmerum Reykjavíkur. Minnst hækkar það í Kringlunni og Hvassaleiti eða um 12,4 prósent að miðgildi. Næst minnst hækkar fasteignamatið í Miðbæ og Vesturbæ eða um tæplega 16 prósent að miðgildi.
Hægt er að skoða hækkun fasteignamats í öllum póstnúmerum á Íslandi hér á vef Kjarnans.
Til hvers er fasteignamatið?
Þjóðskrá Íslands heldur utan um fasteignamatið. Það byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýtt fasteignamat miðast við verðlag í febrúar 2017 og það tekur gildi á síðasta degi ársins.
Tilgangur fasteignamatsins er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda, svosem fasteignagjöld og erfðafjárskatt.