Costco hefur lækkað verð á bensíni hjá sér í 166,9 krónur á lítra. Samkvæmt síðunni bensínverð.is er dýrasti bensínlitrinn hjá Skeljungi, en þar kostar hann 195,4 krónur. Það þýðir að munurinn á dýrasta og ódýrasta bensínítra sem fáanlegur er í dag á Íslandi er 28,5 krónur og að lítri af bensíni kostar 17 prósent meira hjá Skeljungi en hann kostar hjá Costco.
Vert er að taka fram að Orkan, sem er í eigu Skeljungs og rekur 55 sjálfsafgreiðslustöðvar víða um land, selur lítra af bensíni á 180,1 krónu, 13,2 krónum meira en Costco. Þar er nú ódýrasta bensínverðið utan þess sem býðst hjá Costco. Alls eru tólf eldsneytisdælur við verslun Costco og þeir sem ætla að nýta sér þær þurfa að vera með aðildarkort sem kostar 4.800 krónur á ári.
Costco hefur líka lækkað verð á díselolíu. Lítri af henni kostar nú 158,9 krónur á eldsneytisstöð verslunarinnar. Dýrasti dísellítrinn hjá hinum eldsneytissölunum kostar 181,3 krónur. Það er algengasta verð á stöðvum Skeljungs, N1 og Olís. Því munar 22,4 krónum á ódýrasta og dýrasta dísellítranum. Orkan kemst næst Costco í verði, og selur dísellítrann á 167,5 krónur.