Ef Covfefe-frumvarp demókrata á bandaríksa þinginu verður að lögum þá verða öll tíst og allir statusar sitjandi forseta skráðir eins og aðrar opinberar yfirlýsingar.
Donald Trump hefur, síðan hann tók við embætti forseta, notað sinn persónulega Twitter-reikning til þess að fjalla um menn og málefni. Tístin hans eru oftar en ekki ruddaleg, í það minnsta harkaleg.
Ekkert tíst hefur hins vegar fengið jafn mikla athygli Covfefe-tístið sem gerði allt vitlaust aðfaranótt 1. júní síðastliðinn. Þar hóf forsetinn hefðbundið tíst um „neikvæða fjölmiðla“ en lauk ekki hugsun sinni heldur skrifaði hið óskiljanlega „covfefe“.
Forsetinn hefur verið skotspónn grínista síðan hann tók við embætti. Steven Colbert var þess vegna einn þeirra sem tók þetta óskiljanlega hugtak óstinnt upp.
Tístið fékk að standa í um það bil sex klukkustundir þar til forsetinn eyddi því. Enginn veit hvað „covfefe“ átti að þýða og það skiptir eflaust ekki neinu máli í stóra samhenginu.
„Ég held að forsetinn og lítill hópur fólks viti nákvæmlega hvað hann var að meina,“ sagði Sean Spicer, talsmaður forsetaembættisins, þegar fjölmiðlamenn spurðu hann út í merkingu „covfefe“.
Nú hafa demókratar á bandaríska þinginu ákveðið að leggja fram frumvarp sem kallast „Communications Over Various Feeds Electronically For Engagement“, skammstafað „COVFEFE“. Ef frumvarpið verður að lögum verða öll tíst forsetans og öll samfélagsmiðlasamskipti hans skráð í opinberar bækur, með öðrum ræðum og ritum forsetans á meðan hann er í embætti.
Frá þessu er greint á vef fréttastofu Reuters.
Jafnvel þó Donald Trump segi tístin sín aðeins vera „eigin skoðanir“ en ekki „skoðanir Hvíta hússins“ eða forsetaembættisins hefur Spicer sagt tístin hans vera opinberar yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna.
Meira en 32 milljónir manna fylgja @realDonaldTrump á Twitter. Hann hefur átt sinn persónulega aðgang í átta ár. Eftir að hann varð forseti hafnaði hann því að taka upp opinberan Twitter-reikning forsetaembættisins @POTUS og notar eigin Android-síma til þess að skrifa örskilaboð til umheimsins.