Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid og fyrirliði portúgalska landsliðsins, hefur verið ákærður fyrir stófelld skattsvik, en í ákærunni er Ronaldo sakaður um að hafa svikið 14,8 milljónir evra undan skatti, eða sem nemur um 1,7 milljarða króna, miðað við núverandi gengi evru gagnvart krónu.
Financial Times greindi frá málinu í dag, en Ronaldo var birt ákæran í dag en hann hafnar því alfarið að hafa brotið gegn lögum, að því er fram kemur á vef Marca.
Ekki eru nema þrjár vikur síðan Hæstiréttur Spánar staðfesti 21 mánaða fangelsis dóm yfir Lionel Messi, leikmanni Barcelona og argentíska landsliðsins, en honum var auk þess gert að greiða tvær milljónir evra í bætur. Ákæran í því máli var vegna svika upp á 4,1 milljón evra á árunum 2007 til 2009. Messi neitaði alfarið sök í málinu, en faðir hans, sem sá um samningsgerðina fyrir hans hönd, hlaut fimmtán mánaða fangelsisdóm vegna málsins.
Í máli Ronaldo er ákært vegna brota á árunum 2011 til og með 2014, en spænsk yfirvöld telja að tekjur vegna ímyndar hans, sem fóru í gegnum félög í þekktu skattaskjóli á bresku jómfrúareyjunum, hafi verið mun hærri en han hafi gefið upp, eða 43 milljónir evra, en ekki 11,5 milljónir evra eins og gefið hafi verið upp.
Ronaldo og Messi hafa verið bestu knattspyrnumenn heims undanfarinn áratug, og skipst á að fá viðurkenningar frá FIFA sem knattspyrnumenn ársins. Ronaldo heldur nú á þeim titli en hann varð í fyrra Evrópumeistari með Portúgal og hefur sigrað Meistaradeild Evrópu með Real Madrid undanfarin tvö ár.