Mikill vöxtur er nú í byggingariðnaði enda framundan umfangsmikil uppbygging íbúða, hótela og atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.
Störfum í byggingariðnaði hér á landi mun fjölga um nokkur þúsund á næstu árum, gangi spár eftir. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að nauðsynlegt sé að leita til útlanda eftir starfsfólki í byggingariðnaði til að mæta eftirspurninni sem framundan er. Einnig bendir hann á að skortur sé á iðnmenntuðu fólki af ýmsu tagi og að augljóslega verði mikla vinnu að hafa fyrir verkamenn á næstu misserum.
Árni Jóhannsson, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, segir í samtali við Morgunblaðið að áætlað sé að tæplega tólf þúsund manns starfi í byggingariðnaði og að raunhæft sé að þeim muni fjölga um allt að þrjú þúsund á næstu árum, gangi spár um vöxt í greininni eftir.
Framundan er mikill uppbyggingartími á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikill skortur er á íbúðarhúsnæði. Búist er við því að um níu þúsund íbúðir verði byggðar á næstu þremur árum til að mæta eftirspurn, og stuðla að jafnvægi á fasteignamarkaði.
Á sama tíma er mikil eftirspurn eftir húsnæði og hefur fasteignaverða rokið upp á síðustu árum. Hvergi í heiminum hefur það hækkað hraðar en á Íslandi, en hækkunin á síðustu tólf mánuðum hefur verið rúmlega tuttugu prósent að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu.
Flestar spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkun fasteignaverðs.