Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur ráðið sér persónulegan lögmann til þess að hjálpa sér við að svara spurningum rannsóknar Robert Mueller á hugsanlegu leynimakki milli rússneskra yfirvalda og forsetaframboðs Donalds Trump.
Í yfirlýsingu frá skrifstofu varaforsetans segir að Pence hafi rætt við nokkra lögmenn áður en hann valdi Richard Cullen, lögmann sem sérhæfir sig í vörn embættismanna og opinberra persóna.
Cullen var verjandi Sepp Blatter, fyrrverandi forseta alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA, þegar Blatter var til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum vegna spillingarmála.
Með þessu er Pence að taka svipuð skref og Donald Trump, sem hefur þegar ráðið sér persónulegan lögmann til þess að annast fyrirspurnir vegna rannsóknar á meintum Rússatengslum.
Pence hefur staðið fast að baki Trump síðan þeir sóru embættiseið 20. janúar síðastliðinn. Um ákvörðun forsetans að víkja James Comey úr starfi forstjóra alríkislögreglunnar FBI sagði Pence, til dæmis, að Trump hafi „tekið rétta ákvörðun á réttum tíma“. Hann lofaði Trump svo fyrir að sýna „styrka og einbeitta forystu sem endurnýjar traust og trúnað Bandaríkjamanna á FBI“.
Mueller rannsakar tengsl og yfirhylmingar
Robert Mueller rannsakar nú hver, ef einhver, tengsl forsetaframboðs Donalds Trump var við rússnesk yfirvöld og viðbrögð forsetans og stjórnar hans við rannsókn FBI á tengslunum.
Markmið rannsóknarinnar er, samkvæmt heimildum Reuters, að komast að því hvort einhver úr framboði Trumps eða úr viðskiptaveldi hans hafi átt í ólöglegum samskiptum við rússneska embættismenn eða haft önnur tengsl við stjórnvöld í Kreml.
Þá er það einnig markmiðið að komast að því hvort einhver brot hafi verið framin og hvort Trump sjálfur eða aðrir hafi reynt að hylma yfir brot sín og ætlað þannig að hindra rannsóknina á einhvern hátt.
Það þykir mjög ólíklegt að sitjandi forseti muni nokkurn tíma verða leiddur fyrir dómara vegna þeirra brota sem nú er kannað hvort hafi verið framin. Ef vísbendingar finnast um að slík brot hafi verið framin gæti það hins vegar orðið grundvöllur fyrir því að bandaríska þingið ákveði að víkja Donald Trump úr embætti forseta Bandaríkjanna. Það er hins vegar mjög ólíklegt að þingið ákveði að grípa til þess að víkja forsetanum úr embætti, enda ráða flokksfélagar Trumps meirihlutanum í fulltrúadeild þingsins.