Sænska húsgagnaverslunin IKEA ætlar að helminga matarsóun á veitingastöðum verslanakeðjunnar á næstu þremur árum. Markmiðið á að spara rekstrarfé og minnka vistspor fyrirtækisins.
Auk þess að vera stærsta húsgagnaverslun í veröldinni rekur IKEA eina af stærstu veitingahúsakeðjum í heimi. IKEA rekur 392 verslanir í 48 löndum um allan heim og í öllum verslununum er að finna veitingastað þar sem seldur er hefðbundinn sænskur matur, eins og Íslendingar þekkja vel.
Samkvæmt könnunum sem fyrirtækið hefur gert á rekstri sínum er um það bil 300 kílógrömmum af mat hent á dag á hverjum veitingastað sem IKEA rekur. Á hverju ári fara þess vegna tæplega 43.000 tonn af mat í ruslið frá veitingastöðum IKEA.
Veitingastaðirnir eru víðast mjög vinsælir. Á síðasta ári borðuðu um það bil 650 milljón manns í verslunum IKEA. Veitingastaðurinn á Íslandi er með stærstu veitingastöðum á landinu.
Að sögn talsmanns veitingareksturs IKEA var gerð könnun á því hversu miklum mat var kastað, í 84 verslunum. Þar var greint hvaða daga og hvenær dags matnum var hent. Með því að beita niðurstöðum þessarar könnunar hefur IKEA tekist að minnka matarsóun um 79 tonn. Það var einfaldlega gert með því að elda minna af honum þegar eftirspurnin var lítil.
„Miðað við að meðalverð á hverjum seldum skammti er 5 evrur, þá höfum við sparað 880.000 evrur sem hefðu annars farið í ruslið,“ er haft eftir Ylvu Magnusson, talsmanni IKEA Food Services, á vef Reuters.
Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fer þriðjungur þess matar sem framleiddur er í heiminum beint í ruslið. Efnahagslegt tap vegna matarsóunar og matartaps nemur um 940 milljörðum dollara og 8 prósent útstreymis gróðurhúsalofttegunda á hverju ári. Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna frá 2016 miða að því að minnka matarsóun um helming til ársins 2030.