Vigdís Finnbogadóttir lýsti yfir stuðningi sínum við tillögu stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár í ávarpi á ráðstefnu í Berkeley háskóla þann 6. Júní. Hún sagði vilja íslenskra kjósenda hafi komið skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 um að innleiða þessa stjórnarskrá.
Ráðstefnan hét „A Congress on Iceland’s Democracy“ og var haldin af lagadeild Berkeley-háskóla og stjórnarskrárfélagi Kalíforníu. Á mælendaskrá voru meðal annars Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri og Silja Bára Ómarsdóttir aðjúnkt í stjórnmálafræði við HÍ.
Í ræðu sinni sagði Vigdís íslensku þjóðina meta lýðræði mikils. Alveg síðan Íslendingar hafi öðlast sjálfstæði hafi þeir leitast við nútímalegri stjórnarskrá, skrifaðri af þjóðinni og fyrir þjóðina.
Hún bætti við að undirbúningur stjórnarskráningarinnar hafi verið einstakt ferli með stjórnlagaráði sem endurspeglaði mismunandi raddir innan þjóðfélagsins. Einnig sagði hún að litið væri á þá stjórnarskrá sem stjórnlagaráð lagði upp með sem þá opnustu og lýðræðislegustu meðal allra lýðvelda og hún hafi vakið athygli víða um heim vegna þess.
„Þar að auki staðfesti þjóðaratkvæðagreiðsla að vilji íslenskra kjósenda væri að innleiða þessa stjórnarskrá. Þó hefur hún enn ekki verið innleidd. Að mínu mati hefur íslenska þjóðin beðið nógu lengi.“
Vigdís hefur áður lýst yfir stuðningi við endurskoðun stjórnarskrárinnar, en Vísir greindi frá því í nóvember 2009 að hún kallaði eftir því að stjórnlagaþingi yrði komið á fót á Íslandi.