Samtök Atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands leggja til að heimilt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár. Vísbendingar séu á lofti um að kennitöluflakk sé umsvifamikið á Íslandi, en á árunum 2008-2015 komu rúmlega 200 framkvæmdastjórar við sögu í þremur eða fleiri gjaldþrotum. Þetta kom fram á blaðamannafundi samtakanna tveggja í dag.
Í yfirlýsingu samtakanna kemur fram að tjón samfélagsins vegna kennitöluflakks sé áætlað á marga milljarða króna á hverju ári. Kennitöluflakk feli í sér að rekstur gjaldþrota félags haldi áfram með nýrri kennitölu, meðal annars til að komast undan greiðslu skatta og lífeyris.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kallaði kennitöluflakk meinsemd í íslensku samfélagi á blaðamannafundi fyrr í dag. Sagði hann einnig mikilvægt að öll fyrirtæki landsins sitji við sama borð í samkeppnislegu tilliti og að þeir sem fara ekki eftir leikreglum samfélagsins búi ekki við forskot.
Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands, tók undir orð Halldórs Benjamíns og kallaði kennitöluflakk „ekkert annað en svindl.” Tjónþolar kennitöluflakks séu meðal annars kröfuhafar og starfsmenn fyrirtækja, lífeyrissjóðir og stéttarfélög. Verstar væru þó afleiðingarnar, sem lýsa sér fyrst og fremst í minna trausti til fyrirtækja í samfélaginu. Líklegt er að áhrifin séu töluverð, en fyrir meira en áratug síðan höfðu þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum á Íslandi beðið tjóns af kennitöluflakki.
Samtökin tvö lögðu fram tillögur í átta liðum til þess að sporna við kennitöluflakki. Meðal þeirra var tímabundin rekstrarbannsheimild, en hún myndi meina aðilum að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt það þrjú ár, leiki rökstuddur grunur um að þeir stundi kennitöluflakk. Bannið yrði ekki lagt á í refsiskyni, heldur til þess að vernda kröfuhafa og almenning. Lagt var til að veiting rekstrarbannsheimildar yrði í höndum Ríkisskattsstjóra, að fengnum úrskurði dómstóla.
Önnur tillaga samtakanna er sú að gera meiriháttar brot á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda refsiverð. Þannig yrði lífeyrissjóðsiðgjöldum starfsmanna fyrirtækja tryggð sambærileg réttarvernd og vörsluskattar hafa nú. Einnig vildu samtökin að nefnd yrði stofnuð um hvort og hvernig megi styrkja stöðu kröfuhafa þrotabúa með lagabreytingum.
Halldór Benjamín bendir á að bæði atvinnuhreyfingar og verkalýðshreyfingar á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu hafa þegar farið í svipaðar aðgerðir, en atvinnurekstrarbannsheimild hafi verið lögfest í Svíþjóð árið 1980, Noregi 1984, Bretlandi 1986 og í Danmörku 2014.
Á tímabilinu 2008-2015 komu 202 framkvæmdastjórar og 481 stjórnarmaður við sögu í þremur eða fleiri gjaldþrotum félaga með takmarkaða ábyrgð. Þótt gjaldþrot fyrirtækja ein og sér séu fullkomlega eðlileg gefi þessi mikli fjöldi manna í mörgum gjaldþrotum ákveðna vísbendingu um umfang kennitöluflakksins, að sögn Halldórs Benjamíns.