Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að í hans huga sé miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýri. Hann hyggst skipa starfshóp sem falið verður að meta flugvallarkosti fyrir innanlandsflug og ætlar að hafa fulltrúa landsbyggðarinnar í þeim hópi. Ráðherrann vonast til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við nýja flugstöð í Vatnsmýri á næsta ári. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hópur var skipaður fyrir nokkrum árum síðan til að fara yfir framtíð innanlandsflugs og hann skilaði skýrslu 2015. Hann var undir stjórn Rögnu Árnadóttur og nefndin hefur ætið verið kölluð Rögnunefndin. Niðurstaðan þeirrar nefndar var að Hvassahraun væri álitlegasti kosturinn fyrir innanlandsflug framtíðar. Undanfarið hefur Morgunblaðið sagt fréttir af því að formaður Svæðisskipulags Suðurnesja telji Hvassahraun ekki henta undir flugvöll þar sem þar sé helsta vatnsverndarsvæði Suðurnesja. Icelandair Group hefur staðið fyrir prófunum í Hvassahrauni til að kanna hversu vel svæðið hentar fyrir nýjan flugvöll. Þeim prófunum er ekki lokið. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir við Morgunblaðið að félagið viti af þessum sjónarmiðum en telji samt sem áður mögulegt að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Hann tekur það þó sérstaklega fram að Icelandair muni ekki byggja flugvöllinn og ð það sé pólitísk ákvörðun um hvort hann verði byggður þarna eða ekki.
Reykjavík vill flugvöllinn burt eftir 2022
Ekki hefur verið einhugur um hvort að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða verði færð annað. Reykjavíkurborg hefur lengi viljað að flugvöllurinn verði færður svo hægt sé að byggja í Vatnsmýrinni og þétta þar með höfuðborgina. Um sér að ræða verðmætasta byggingarlandið innan marka hennar sem sé auk þess afar mikilvægt fyrir þróun hennar.
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar sem hann er til 2022 en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki í áföngum eftir það ár. Í fyrrasumar komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þurfi að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli.
Fá ekki hljómgrunn hjá samstarfsflokkum
Nýjar yfirlýsingar Jóns munu líkast til ekki hljóta mikinn hljómgrunn hjá samstarfsflokkum Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn, Bjartri framtíð og Viðreisn. Ráðherrar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru á þeirri skoðun að skipulagsvald yfir Vatnsmýrinni, og þar með Reykjavíkurflugvelli, eigi að liggja hjá Reykjavíkurborg. Auk þess er Björt framtíð hluti af meirihlutasamstarfi í Reykjavíkurborg sem hefur mjög skýra stefnu um að flugvöllurinn eigi ekki að vera í Vatnsmýri til framtíðar.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kom fram að ríkisstjórnin muni „beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“
Þegar hafa komið upp deilur milli stjórnarliða vegna framtíðar Reykjavíkurflugvallar á þessu kjörtímabili. Það gerðist raunar sama dag og ríkisstjórnin tók við. Þá sagði Jón Gunnarsson við Vísi að enginn önnur lausn væri í stöðunni en að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni. Daginn eftir endurtók hann þessa skoðun og útilokaði ekki inngrip í skipulagsvald Reykjavíkurborgar í málinu. Nokkrum dögum síðar steig Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fram að sagði að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni.