Morgundagur ehf., útgáfufélag Fréttatímans, er komið í gjaldþrotameðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en skiptastjóri hefur ekki verið skipaður enn. Þetta fékkst staðfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Tilraunir til að endurreisa útgáfuna, eftir að hún var komin í rekstrarvanda, runnu út í sandinn.
Nýir eigendur keyptu allt hlutafé í móðurfélagi Fréttatímans í nóvember 2015. Gunnar Smári Egilsson leiddi þann hóp en með voru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Auk þess var Valdimar Birgisson áfram í eigendahópnum.
Markmiðið var að efla útgáfuna og var útgáfudögum fjölgað, en í upphafi kom Fréttatíminn út einu sinni í viku, og markaði sér stöðu á fjölmiðlamarkaði sem helgarblað. Fljótlega tók að halla undan fæti og var reksturinn kominn á endastöð í upphafi þessa árs.
Tilkynnt var í janúar mánuði á þessu ári að Árni og Hallbjörn hefðu selt sinn hlut í útgáfufélaginu til annarra hluthafa. Eftir viðskiptin voru hluthafarnir þrír: þeir Gunnar Smári, Sigurður Gísli og Valdimar.
Samkvæmt vef Fjölmiðlanefndar voru eigendur Morgundags, þegar Fréttatíminn var í útgáfu, Gunnar Smári Egilsson, 46%, Dexter fjárfestingar ehf., í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar, 29%, og framkvæmdastjórinn Valdimar Birgisson, 25%.