Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, Páll Jóhann Pálsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokks, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, bókuðu harða gagnrýni á Þorstein Pálsson á fundi nefndar sem á að móta tillögur um hvernig tryggja megi sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Þremenningarnir eru fulltrúar sinna flokka í nefndinni og Þorsteinn er formaður hennar og skipaður sem slíkur af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Tilefni bókunarinnar er aðsend grein sem Þorsteinn skrifaði á Kjarnann í síðustu viku. Þar sagði Þorsteinn m.a. að mesta hættan sem sé til staðar í ríkisstjórnarsamstarfi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn sé að sá síðastnefndi nái saman með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum í því breiða samtali um nokkur höfuðmál íslenskra stjórnmála sem fram undan sé. Bæði Framsókn og Vinstri græn hafi „staðið jafn fast eða jafnvel fastar gegn kerfisbreytingum en Sjálfstæðisflokkurinn“. Flokkarnir komist ekki hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum á næstu mánuðum eða misserum.
Svandís svaraði Þorsteini með grein daginn eftir. Fyrirsögn hennar var „Svona er ekki unnið að því að skapa sátt“. Í greininni gagnrýndi hún Þorstein harðlega fyrir að veitast að flokkum sem eiga sæti í sáttanefndinni um sjávarútvegsmál og spurði hvort tilgangur nefndarinnar væri að skerpa línur í átökum milli stjórnarflokka.
Í Morgunblaðið er sagt að vitnað sé í grein Þorsteins í bókun þremenninganna og þar er tekið fram að vandséð sé að formaður nefndarinnar sé að vinna að því marki að ná víðtækri sátt um gjaldtöku í sjávarútvegi, sé miðað við umrædd skrif.