Flestir erlendu hlutabréfasjóðir sem Lífeyrissjóður Verslunarmanna hefur fjárfest í teljast frekar eða mjög áhættusamar meðal fjárfesta. Almannatengslafulltrúi Lífeyrissjóðsins segir sjóðina valda út frá áratuga reynslu
Í síðasta ársreikningi Lífeyrissjóðs Verslunarmanna kemur fram að milljörðum hafi verið veitt í fjárfestingum erlendis, þar af 71 milljarður í hlutabréfasjóði. Hlutabréfasjóðirnir skiluðu margir hverjir yfir 4% ávöxtun, en eru flestir taldir frekar eða mjög áhættusamir samkvæmt lýsingu sjóðanna.
Hjá sjóðunum er gjarnan gefið út svokallað áhættu-ávöxtunarstig (SRRI) á gefnu bili þar sem lágt stig þýðir litla áhættu og minni líkur á ávöxtun, en hátt stig þýðir mikla áhættu og hærri vænta ávöxtun. Mælikvarðinn er fundinn út frá flökti fjárfestingarinnar á síðustu fimm árum.
Hér að neðan eru hlutabréfasjóðirnir sem Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur fjárfest í erlendis og koma fram á ársreikningi lífeyrissjóðsins. Áhættu-ávöxtunarstig hvers sjóðs er ýmist á bilinu 1-5 eða 1-7. Fundnar voru upplýsingar um alla sjóði að einum undanskildum. Hlutabréfasjóðirnir eru allir taldir frekar eða mjög áhættusamir með háu áhættu-ávöxtunarstigi. Áhættustigið er í sviga fyrir aftan nafn hvers sjóðs:
- Vanguard Global Stock (4 af 5)
- Meridian – Global Concentrated (5 af 7)
- Meridian – Global Equtity Fund (5 af 7)
- State Street North American Fund (5 af 7)
- GS N11 (5 af 7)
- AB FCP I (fannst ekki)
- Atlantis China Fund (Flokkað sem High-risk)
- Morgan Stanley Asian Fund (6 af 7)
- Coupland Cardiff Japan Fund (6 af 7)
- JP Morgan Korea Equity (6 af 7)
- JP Morgan Taiwan Fund (7 af 7)
- LFP China Value (6 af 7)
Eignir í hlutabréfasjóðunum samsvarar um 45% af erlendum eignum og 12% af heildareignum Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Á heimasíðu sinni segir að lífeyrissjóðurinn forðist áhættu hverju sinni ef hún er ekki nauðsynleg til að ná markmiðum um ávöxtun.
Þórhallur B. Jósepsson, almannatengslafulltrúi lífeyrissjóðsins, segir allar þær erlendu fjárfestingar sem lífeyrissjóðurinn hefur farið í fela í sér minni áhættu þar sem þær hafa allar dreift eignasafn og eru valdar með hliðsjón af reynslu undanfarinna áratuga.