Ingólfur Bender, hagfræðingur hjá Samtökum Iðnaðarins, segir of lítið fjárfest í samgönguinnviðum á Íslandi. Hlutfall opinberra fjárfesta í vegasamgöngur síðustu ár hafi lækkað um leið og álag á innviðina hafi aukist.
Þetta kemur fram í grein Ingólfs, „Vegir og vegleysur“ á heimasíðu SI. Í greininni segir að miklar framfarir hafi átt sér stað á sviði samgöngumála sem geri Ísland að aðgengilegri áfangastað fyrir ferðamenn. Má þar einna helst nefna flugsamgöngur, en einnig hafi verið mikið fjárfest í bílaflotanum í kjölfar fjölgunar ferðamanna sem koma til landsins.
Einn þáttur samgöngumála, vegamálin, hafi þó setið eftir. Aukið álag sé á vegakerfi landsins vegna vaxtar ferðaþjónustunnar og hafa fjárfestingar og viðhald ekki náð að halda í við þá þróun.
Meðaltal fjárfestinga hins opinbera í vegasamgöngur hefur verið 0,9% af landsframleiðslu síðustu sex árin. Í fyrra var hlutfallið litlu hærri, eða 1,0% af landsframleiðslu. Meðaltal á þessu sviði tvo áratugina þar á undan hafi hins vegar verið nokkru hærri, eða um 1,6% af landsframleiðslu.
Einnig er tekið fram í greininni að hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu hafi ekki aðeins verið hærra á því tímabili, heldur hafi einnig verið minna álag á vegakerfinu þar sem enginn viðlíka vöxtur væri í ferðaþjónustunni og nú hafi verið síðustu ár.
Samkvæmt greininni sker samgöngumynstur ferðamanna sig úr hér á landi þar sem þeir ferðast fyrst og fremst um landið í bifreiðum en ekki með innanlandsflugi og með lestum líkt og víðast hvar annars staðar. Því fylgi aukið álag á vegakerfið, en umferð um hringveginn var 44% meiri á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en á sama tíma fyrir fimm árum síðan.
Ingólfur segir fjárfestingar síðustu ára rétt hafa náð að halda í við afskriftir og vegasamgöngurnar því alls ekki náð að vaxa þótt þær hafi fengið auki vægi í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Á mynd hér að ofan sést hvernig fjárfestingar hins opinbera hefur fengið minna vægi ef miðað er við landsframleiðslu á síðustu árum.
Að lokum segir Ingólfur fjárfestingar í vegakerfinu vera öryggismál fyrir erlenda ferðamenn og allan almenning í landinu. Rekstur vegakerfisins og uppbyggingu ætti að fjármagna af notendum þeirra, til dæmis með sköttum á bensíni og díselolíu. Fjárfestingar í innviðum þyrfti að setja í forgang til þess að mæta uppsafnaðri þörf fyrir þær og skapa í leiðinni svigrúm fyrir frekari hagvöxt hér á landi.