Bankar og fjármálafyrirtæki ættu að birta upplýsingar um loftslagstengda áhættu með fjárfestingum sínum. Þetta er tillaga verkefnahóps um gagnsæja loftslagtengda fjármálastarfsemi sem skilaði lokaskýrslu sinni í gær.
Meðal þeirra sem áttu sæti í verkefnahópnum voru Mark Carney, seðlabankastjóri Englandsbanka, og Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York. Verkefnið var kynnt í tengslum við G20-ráðstefnunna í Hamborg í næstu viku.
Í skýrslunni þar sem tillagan er lögð fram er það útskýrt hvernig fyrirtæki ættu að veita loftslagstengdar upplýsingar í fjárhagsskýrslum, svo hægt sé að leggja mat á loftslagstengda áhættu í hagkerfum heimsins.
Mælt er með að upplýsingar um beint og óbeint útstreymi gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins komi fram. Einnig ættu fyrirtækin að lýsa áhættu og tækifærum fyrirtækisins sem verða til vegna loftslagsbreytinga.
Verkefnahópurinn var stofnaður á loftslagsráðstefnunni COP21 í París árið 2015 og var Michael Bloomberg falið að leiða vinnuna. Nærri því 200 lönd ákváðu á COP21 að standa saman að aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Hópur Bloombergs hefur það verkefni að leggja til leiðir fyrir einkafyrirtæki í baráttunni gegn hlýnun loftslags.
2 billjónir dollara hengdar á tillögurnar
Bloomberg segir loftslagsbreytingarnar vera áhættuþátt sem ekki sé hægt að líta fram hjá í rekstri fyrirtækja. „Þess vegna er mikilvægt að sníða ramma utan um birtingu loftslagstengdra upplýsinga,“ er haft eftir Bloomberg á vef breska blaðsins The Guardian.
„Þessi rammi sem verkefnahópurinn leggur til hjálpar fjárfestum að meta hugsanlega áhættu og ábata af umskiptum í lágkolefnishagkerfi,“ segir Bloomberg.
Það er upp á fyrirtæki og fjármálastofnanir komið að innleiða tillögur verkefnahópsins. Hvatarnir fyrir því eru að til lengri tíma verður mun hagkvæmara að reka fyrirtæki og stofnanir í hagkerfi sem reiðir sig lítið eða ekkert á jarðefnaeldsneyti.
Meira en 100 fyrirtæki sem velta meira en tveimur billjón Bandaríkjadollurum á ársgrundvelli hafa opinberlega lofað að innleiða tillögur verkefnahópsins.
Loftslagsbreytingar helsta ógn fyrirtækja nútímans
„Ein helsta, og hugsanlega misskildasta, ógnin sem stafar að fyrirtækjum í dag tengist loftslagsbreytingum,“ segir í fréttatilkynningu verkefnahópsins. „Jafnvel þó það sé skilningur flestra að útblástur gróðurhúsalofttegunda muni auka enn á hlýnun loftslags og að sú hlýnun geti haft slæmar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar, er erfitt að áætla nákvæmlega hversu slæmar afleiðingarnar verða.“
„Stærð vandamálsins gerir það sérstaklega ögrandi, einkum þegar kemur að hagstjórn.“
Í skýrslunni eru breiðustu línurnar í aðgerðum fyrirtækja teiknaðar; Aðgerðir á borð við affjárfestingu í jarðefnaeldsneytisiðnaði og tengdum geirum er þar efst á blaði. „Hröð lækkun á kostnaði og aukin notkun hreinnar orku og orkusparandi tækni gætu haft mikil skammtímaáhrif á fyrirtæki í jarðefnaeldsneytisiðnaði.“