Stjórn Neytendasamtakanna hefur sagt upp öllu starfsfólki sínu. Í tilkynningu kemur fram að það sé gert „í ljósi aðstæðna“. Þar segir enn fremur: „Þessi aðgerð er liður í endurskipulagningu og endurfjármögnun samtakanna. Vonast er til að starfsfólk verði endurráðið áður en uppsagnarfrestur rennur út.“ Alls starfa átta manns hjá samtökunum, að meðtöldum formanni þeirra.
Mikil átök hafa verið innan Neytendasamtakanna undanfarin misseri. í vor sagði stjórn Neytendasamtakanna upp ráðningarsamningi Ólafs Arnarsonar, formanns samtakanna, sem framkvæmdastjóra samtakanna.
Stjórnin samþykkti vantraust á Ólaf 6. maí síðastliðinn en hann tilkynnti samt sem áður að hann ætlaði að sitja áfram sem formaður. Stjórnin gaf þær ástæður að laun Ólafs hafi verið hækkuð um 50 prósent og fjárútlát sem hann stóð fyrir, meðal annars vegna bifreiðar sem hann hafði til umráða, hafi ekki verið samþykkt af stjórninni. Ólafur hefur hafnað þessu alfarið.
Þann 22. maí sendi stjórn Neytendasamtakanna síðan frá sér ítarlega yfirlýsingu. Þar sagði að ekki ríkti traust milli formanns og annarra í stjórn.