Ný gerð rafbílsins Teslu mun renna af færibandinu í þessari viku, samkvæmt því sem Elon Musk, stofnandi og yfirmaður fyrirtækisins, skrifar á Twitter.
Tesla Model 3 er ætlað að vera framlag fyrirtækisins á hinn almenna bílamarkað. Bíllinn á að vera samkeppnishæfur við aðra millistærðar fjölskyldubíla og kosta um 35.000 bandaríska dali (rúmlega 3,5 milljónir íslenskra króna). Það er helmingi minna en Model S-bíllinn sem kom á markað um mitt ár 2012.
Model 3 er tilbúinn tveimur vikum á undan áætlunum fyrirtækisins. Musk bætti við að fyrstu 30 eintökin af nýja bílnum verði afhent í lok þessa mánaðar.
Fjöldi framleiddra eintaka af rafbílum Teslu eykst hratt um þessar mundir. Musk segir um það bil 100 bíla verða framleidda í ágúst og meira en 1.500 bíla í september. Í desember verði svo búið að smíða 20.000 Model 3-bíla. Meira en 400.000 pantanir hafa borist.
Model 3 er þriðja kynslóð Tesla-rafbílanna, eins og nafngiftin ber vitni um. Síðasta útgáfan, Model X, var gríðarlega flókin í framleiðslu og seinkaði afhendingu fyrsta eintaksins um 18 mánuði. Model X er lúxus-smájeppi og bauðst viðskiptavinum Tesla að velja úr miklu úrvali aukahluta sem flækti framleiðsluferlið gríðarlega.
Nýi bíllinn verður fyrsta bílgerðin undir merkjum Tesla sem framleiddur verður í miklu magni. Árið 2015 framleiddi Tesla aðeins samtals 84.000, miðað við keppinauta sína á markaði, eins og General Motors sem smíðuðu meira en 10 milljónir eintaka.
Með aukinni framleiðslu mun álagið á þjónustuhluta Tesla stækka mikið. Nú þegar hefur 30 prósent meira fjármagni verið veitt til verslana og þjónustustöðva Tesla.