Morgundagur ehf., útgáfufélag Fréttatímans, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og hefur Þorsteinn Einarsson hrl. verið skipaður skiptastjóri, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Tilraunir til að endurreisa útgáfuna, eftir að hún var komin í rekstrarvanda, runnu út í sandinn.
Nýir eigendur keyptu allt hlutafé í móðurfélagi Fréttatímans í nóvember 2015. Gunnar Smári Egilsson leiddi þann hóp en með voru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Auk þess var Valdimar Birgisson áfram í eigendahópnum.
Markmiðið var að efla útgáfuna og var útgáfudögum fjölgað, en í upphafi kom Fréttatíminn út einu sinni í viku, og markaði sér stöðu á fjölmiðlamarkaði sem helgarblað. Fljótlega tók að halla undan fæti og var reksturinn kominn á endastöð í upphafi þessa árs.
Tilkynnt var í janúar mánuði á þessu ári að Árni og Hallbjörn hefðu selt sinn hlut í útgáfufélaginu til annarra hluthafa. Eftir viðskiptin voru hluthafarnir þrír: þeir Gunnar Smári, Sigurður Gísli og Valdimar.
Samkvæmt vef Fjölmiðlanefndar voru eigendur Morgundags, þegar Fréttatíminn var í útgáfu, Gunnar Smári Egilsson, 46%, Dexter fjárfestingar ehf., í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar, 29%, og framkvæmdastjórinn Valdimar Birgisson, 25%.