Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Marple-málinu svokallaða til Hæstaréttar.
Þetta staðfesti Hörður Felix Harðarson hrl., lögmaður Hreiðars Más, við mbl.is. „Það er alveg ljóst að þessum dómi verður áfrýjað enda teljum við efnislega niðurstöðu dómsins í öllum atriðum ranga,“ segir Hörður í viðtali við mbl.is.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í Marple-málinu svokallaða í annað sinn í gær, og voru þrír af ákærðu dæmdir sekir. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, var sýknuð.
Hæstiréttur ómerkti fyrri dóm, þar sem dr. Ásgeir Brynjar Torfason, sem var meðdómandi í málinu og hluti af fjölskipuðum dómi, var úrskurðaður vanhæfur vegna ummæla hans og athafna á samfélagsmiðlum.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var dæmdur í eins árs fangelsi en í dómnum sem var ómerktur var hann dæmdur í hálfs árs fangelsi. Refsingin var því þyngd frá fyrri dómi. „Refsiákvörðunin er síðan hreint út sagt óskiljanleg. Við fyrri meðferð málsins fyrir rétt um tveimur árum síðan taldi dómurinn hæfilegt að dæma umbjóðanda minn til sex mánaða fangelsisrefsingar en með því var refsingin færð í sex ár sem er hámarkið samkvæmt umræddum lagaákvæðum. Við þá ákvörðun var tekið tillit til tveggja annarra dóma sem þá höfðu fallið,“ segir Hörður Felix í samtali við mbl.is.
Magnús Guðmundsson, fyrrum bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi líkt og í fyrri dómi. Skúli Þorvaldsson var dæmdur í sex mánaða fangelsi líkt og í fyrri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Skúli var sýknaður af ákæruatriðum sem snéru að hylmingu af ásetningu og peningaþvætti af ásetningi.
Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu.
Málið, eins og embætti sérstaks saksóknara lagði það upp, snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki.