Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla hyggist smíða heimsins stærstu rafhlöðu og tengja rafkerfi Suður-Ástraílíu, heils fylkis í sambandsríkinu Ástralíu.
Yfirvöld í fylkinu undirrituðu samning við Elon Musk, forstjóra Tesla, um þetta á föstudag. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.
Rafhlaðan á að verja íbúa og fyrirtæki fyrir orkukreppu í raforkukerfi fylkisins. Rafmagnsleysi hefur verið vandamál í Suður-Ástralíu vegna aukinna öfga í veðri og krappari storma sem ganga yfir Ástralíu.
Musk hefur lofað því að ef Tesla tekst ekki að smíða rafhlöðuna og tengja hana raforkukerfinu á 100 dögum þá muni Suður-Ástralía fá rafhlöðuna frítt. 100 megawatta rafhlaða, sem annar 129 megawattstundum, ætti þess vegna að vera tilbúin á þessu ári.
Stærsta rafhlaða sem smíðuð hefur verið í dag er aðeins 30 megawött svo stökkið er stórt fyrir Tesla. „Sjálfsagt er fólgin í þessu einhver áhætta, því þetta verður stærsta rafhlöðutenging í heimi og með nokkrum mun,“ sagði Musk í Adelaide, höfuðborg Suður-Ástralíu, á föstudag.
Rafhlaðan verður tengd vindorkugarði og hýsir orku þaðan allan sólarhringinn. Við rafmagnsleysi eða þegar álagið á raforkukerfið er meira en vanalega mun rafhlaðan geta staðið straum af aukinni raforkueftirspurn.
Fylkisstjórinn Jay Weatherill segir rafhlöðuna eiga eftir að gjörbreyta því hvernig endurnýjanleg orka er nýtt. „Þetta mun jafnframt koma stöðugleika á raforkukerfi Suður-Ástralíu. Í framhaldinu mun þessi aðgerð setja þrýsting á lækkun markaðsvirðis,“ sagði Weatherill.
Tesla hraðar rafhlöðuþróuninni
Rafbílafyrirtækið Tesla hefur á undanförnum misserum hraðað þróun rafhlaða sinna meðfram framleiðslu rafbíla. Með Tesla-fyrirtækinu er Elon Musk frumkvöðull í framleiðslu rafbíla og hefur sett mikinn þrýsting á hinn rótgróna bílamarkað um orkuskipti.
Einkaleyfi Tesla á uppfinningum fyrirtækisins tengdum rafbílunum hafa verið gefin frjáls. Musk viðrist þess vegna reka rafbílafyrirtækið Tesla af meiri hugsjón en gróðavon.
Nýverið tilkynnti sænski bílaframleiðandinn Volvo að fyrirtækið myndi hætta þróun og smíði bíla sem eingöngu væru drifnir sprengihreyfli árið 2019. Allir bílar fyrirtækisins verða þá að fullu eða að hluta knúnir rafmagni sem geymt er í rafhlöðum.
Í fréttatilkynningu frá Volvo segir að á árunum 2019 til 2021 muni fyrirtækið kynna fimm nýja rafbíla sem verða að öllu leyti knúnir rafmagni og tryggja að allar aðrar gerðir nýrra Volvo-bíla verði búnir blendingsvél.