Velta í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hefur stóraukist á síðustu misserum, en hún mældist 33,1% hærri milli maímánaða 2016 og 2017 miðað við sama tímabil ári á undan. Á sama tíma minnkaði velta sjávarútvegsins um 15,7%. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.
Hagstofa birti í dag tölur um veltu í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, en þar kemur fram að heildarveltan jókst um 3,3% á tímabilinu maí 2016 til og með apríl 2017, miðað við síðustu tólf mánuði þar á undan. Mikið af þessari hækkun má hins vegar útskýra með breytingar á skattalöggjöf, en í ársbyrjun 2016 varð starfsemi farþegaflutninga og ferðaskrifstofa virðisaukaskattsskyld.
Ef tekið er tillit til lagabreytinganna var mesta hækkunin milli tímabila, hlutfallslega og í krónutölum, í liðnum „byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu.“ Milli maímánaða 2016 og 2017 nam velta undir þeim lið 296 milljörðum og hækkaði um 73 milljarða milli tímabila, eða um 33,1%. Á vef Hagstofu er því haldið fram að hluti vaxtarins gæti verið tilkominn vegna uppgangs í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
Samhliða aukningu í veltu hjá ferðaþjónustu og í byggingariðnaði minnkaði umfang sjávarútvegsins, en velta greinarinnar lækkaði um 15,7% á viðmiðunartímabilinu. Lækkunin er fyrst og fremst talin stafa af mikilli styrkingu krónunnar og nýafstöðnu verkfalli sjómanna.
Mikil gróska virðist vera í byggingariðnaði, en Kjarninn fjallaði fyrir stuttu um 16% fjölgun launþega í atvinnugreininni. Einnig birtist hér aðsend grein Ingólfs Bender, hagfræðings Samtaka Iðnaðarins, en í henni bendir Ingólfur á fjölgun launþega í greininni frá hruni. Samkvæmt honum hefur þeim fjölgað um 2.000 á síðustu sjö árum og eru þeir nú 17.000 talsins. Þannig er eitt af hverjum tíu störfum sem skapast hafa á síðustu árum í framleiðsluiðnaði.
Hafa ber í huga að umræddar tölur Hagstofunnar ná aðeins til virðisaukaskattsskyldra atvinnugreina og því er ýmis þjónusta ekki talin með.