Smásölu- og hugbúnaðarrisinn Amazon gæti hækkað mikið í verði á næstu tólf mánuðum, að mati greinanda UBS bankans, og teiknar hann upp sviðsmynd í nýjustu greiningu sinni þar sem verðmiðinn muni hækka um 60 prósent á næstu tólf mánuðum. Ef það myndi gerast, þá gæti farið svo að Amazon færi upp að hlið Apple, sem það fyrirtæki sem er með mesta markaðsvirðið. Virði Apple er nún 782 milljarðar Bandaríkjadala, og er félagið langsamlega verðmætasta skráða hlutafélag heimsins.
Í þeirri sviðsmynd er sérstaklega horft til fjögurra þátta.
1) Sala á Prime áskrifendum aukist hraðar en búist er við, en talið er að þær séu nú ríflega 80 milljónir (talan er ekki gefin upp nákvæmlega)
2) Árangurinn á nýjum markaðssvæðum og með nýjum vörulausnum verði betri en áætlað er.
3) Almennt betri sala og meiri velt á vefnum.
4) Lítill árangur verði í sölu vefþjónustu frá Apple og Google, keppinautum á markaði.
Hlutabréf Amazon hafa hækkað um þriðjung á árinu. Í júní tilkynnti félagið um kaup á Whole Foods matvörukeðjunni fyrir 14,7 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.500 milljörðum króna.
Markaðsvirði Amazon er nú 483 milljarðar Bandaríkjadala, en uppgangur fyrirtækisins hefur verið með ólíkindum á síðustu tveimur árum. Um mitt ár 2015 var verðmiðinn 138 milljarðar Bandaríkjadala og hefur hann því margfaldast frá þeim tíma.
Stofnandinn Jeff Bezos, sem einnig er forstjóri, á ennþá 17 prósent hlut í fyrirtækinu og nemur virði hans 82 milljörðum Bandaríkjadala.