Ísland tapaði gegn Frakklandi í fyrsta leik íslenska liðsins á Evrópumótinu 2017 í knattspyrnu sem fram fer í Hollandi. Frakkland fékk vítaspyrnu á loka mínútum leiksins og vann leikinn 1-0. Eugénie Le Sommer skoraði mark Frakklands.
Austurríki vann Sviss í fyrri leik riðilsins í dag, einnig 1-0. Austurríki og Frakkland eru þess vegna jöfn í efsta sæti riðilsins með þrjú stig hvort. Ísland og Sviss eru jöfn í þriðja sæti með ekkert stig.
Íslenska liðið varðist gríðarlega vel allan leikinn en fékk dæmt á sig vítaspyrnu þegar 85 mínútur voru liðnar af leiknum. Dómurinn var súr enda hafði dómarinn ekki dæmt vítaspyrnu Íslandi í vil fyrr í leiknum, þó það hafi sést alla leið til Íslands að þar hefði átt að flauta.
Frönsku konurnar voru mun meira með boltann í leiknum, en þær íslensku áttu hverja tæklinguna á fætur annari og náðu að halda skyttum franska liðsins fyrir utan teiginn.
Ísland mætir Sviss næst á laugardaginn. Leikirnir gegn Sviss og Austurríki verða hreinir úrslitaleikir fyrir Ísland sem þarf að fá öll þau stig sem hægt er til þess að geta tryggt sér miða í útsláttarkeppni Evrópumótsins.