Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, áttu annan og mun persónulegri fund í Hamborg á dögunum þegar G20-ráðstefnan fór þar fram. Bandarísk stjórnvöld eiga engar skrár um fundinn og þar til í kvöld, hafði ekki verið sagt frá honum.
Bandaríska dagblaðið The New York Times greinir frá þessu á vef sínum.
Forsetarnir tveir sátu tveir saman til borðs í einkakvöldverði G20-leiðtoganna á ráðstefnunni í um klukkustund. Fyrr sama dag höfðu Trump og Pútín fundað saman opinberlega í rúmlega tvær klukkustundir.
Opinberi fundurinn hafði aðeins verið skipulagður í 30 mínútur en þar ræddu Pútín og Trump, ásamt utanríkisráðherrum sínum, um meintar tilraunir stjórnvalda í Kreml til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum síðasta vetur, auk annarra mála.
Pútín er sagður hafa þvertekið fyrir að hafa komið með nokkrum hætti að svindli í bandarísku kosningunum.
Samkvæmt heimildum The New York Times sætti návígi Trumps og Pútíns furðu meðal annara leiðtoga sem sóttu sama kvöldverðarboð. Leiðtogarnir eru sagðir hafa haft orð á því í einkasamtölum hversu furðulegt það væri að forseti Bandaríkjanna myndi láta svo mikið bera á samtali sínu við starfsbróður sinn frá Rússlandi.
Haft er eftir Ian Bremmer, forseta Eurasia Group, að hann hafi heyrt það beint frá viðstöddum að „öllum hafi fundist þetta mjög skrítið, að hér væri forseti Bandaríkjanna, sem vill greinilega sýna að hann eigi í betri samskiptum við Pútín en nokkur annar, eða þá að honum sé bara alveg sama“.
Bremmer segir aðra leiðtoga í kvöldverðarboðinu hafa verið brugðið í brún og verið óviss um hvað þetta ætti að þýða.
Hvíta húsið hefur ekki svarað fyrirspurnum The New York Times um hvað samtal Trumps og Pútíns fól í sér. Einn yfirmaður í Hvíta húsinu staðfesti þó að það hefði átt sér stað.