Íslenska landsliðið tapaði 1-2 gegn Sviss í öðrum leik Íslands á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu í Hollandi. Ísland er með núll stig eftir tvo leiki. Ísland á einn leik eftir í riðlakeppninni, á móti Austurríki.
Fanndís Friðriksdóttir kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik með flottu marki eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Dagnýju Brynjarsdóttur inn fyrir vörn svissnesku leikmannanna.
Sviss jafnaði fyrir hálfleik með marki frá Lara Dickenmann. Ramona Bachmann skoraði svo annað mark Sviss á 52. mínútu leiksins eftir mistök í íslensku vörninni.
Seinni hálfleikurinn dróst á langinn vegna meiðsla sem Gaëlle Thalmann, markvörður Sviss, hlaut eftir samstuð við Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur. Þess vegna var 11 mínútum bætt við leikinn.
Íslenska liðið átti í stökustu vandræðum með að halda aftur af svissnesku landsliðskonunum þegar leið á leikinn. Stelpurnar okkar áttu samt góða spretti en tókst ekki að koma boltanum oftar í netið.
Ísland þarf nú að vinna síðasta leik sinn til þess að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppni mótsins auk þess sem að stelpurnar okkar þurfa að treysta á úrslit í öðrum leikjum í riðlinum. Frakkar þurfa að vinna alla sína leiki, en næstu mótherjar þeirra eru Austurríki í kvöld.
Uppfært að kvöldi laugardags 22. júlí – Ísland kemst ekki áfram í úrslitakeppni mótsins því Austurríki og Frakkland gerðu 1-1 jafntefli í leik sínum. Þrjú stig í síðasta leiknum munu þess vegna ekki duga til þess að ná öðru sæti í riðlinum.