Bandarískir þingmenn hafa komist að þverpólitískri sátt um að styðja lagafrumvarp um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Rússum, Íran og Norður-Kóreu. Reuters hefur þetta eftir leiðtogum úr röðum demókrata í þinginu.
Nýju lögin myndu skerða vald Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, til þess að fella viðskiptaþvinganir á önnur ríki úr gildi, eins og hann hefur sagst ætla að gera varðandi Rússland.
Fulltrúadeild þingsins mun greiða atkvæði um frumvarpið á þriðjudaginn en það hefur þegar verið samþykkt í öldungadeild þingsins. Aðeins þvingunum á Norður-Kóreu hefur verið bætt við síðan öldungadeildarþingmenn samþykktu það í síðasta mánuði.
Ef frumvarpið verður að lögum þarf Trump að kynna allar aðgerðir sínar fyrir þingheimi ef þær hafa víðtæk áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna í tengslum við Rússland. Undir þetta falla tilraunir til þess að draga úr viðskiptaþvingunum og ef Trump vill skila rússneskum eignum í Bandaríkjunum sem bandarísk yfirvöld hafa gert upptæk.
Vonast er til að frumvarpið sendi skýr skilaboð til forsetans um að viðhalda ströngu aðhaldi í garð Rússa.