Chuck Schumer, leiðtogi demókrata á bandaríska þinginu, telur ólíklegt að þingmenn Repúblikanaflokksins muni leyfa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að reka Robert Mueller eða náða sjálfan sig af ákærum á hendur sér.
Mueller var ráðinn til þess að rannsaka meint áhrif Rússa á bandarísku kosningarnar á síðasta ári og samskipti kosningabaráttu Trumps við rússneska ráðamenn og umboðsmenn þeirra. Fyrir vikið hefur Mueller sætt gagnrýni forsetans sem segir sögurnar allar uppspuna frá A-Ö, jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á annað.
Frá þessu er greint á vef Bloomberg.
Schumer segist ekki geta ímyndað sér að kollegar hans í meirihluta repúblikana, þar með talið Mitch McConnell leiðtoga þingflokksins og Paul Ryan þingforseta, muni láta afskipti Trumps óhreyfð.
„Það yrðu einhver mestu brot á reglum réttarríkisins, á lýðræðishefðum og því sem lýðræðið okkar snýst um,“ sagði Schumer í sjónvarpsviðtali á bandarísku stöðinni ABC í gær. „Slíkt mundi valda náttúruhamförum í Washington.“
Donald Trump gaf í skyn, í viðtali við bandaríska dagblaðið The New York Times í síðustu viku, að búið væri að draga rauða línu utan um meint leynimakk með Rússum, sem Mueller mætti ekki stíga yfir. Á laugardag var forsetanum svo tíðrætt á Twitter um náðunarvald sitt.
Trump getur ekki rekið Robert Mueller enda starfar sá í umboði Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Rosenstein gegnir skyldum dómsmálaráðherra vegna þess að dómsmálaráðherrann Jeff Sessions er sjálfur til rannsóknar í þessu máli.
Vara Trump við að náða sig eða fjölskyldu sína
Nýr samskiptastjóri Donalds Trump, Anthony Scaramucci, hóf störf á föstudaginn. Hann hefur sagt fjölmiðla einbeita sér of mikið að hugsanlegum samskiptum Trumps við Rússa. Hann sagði í samtali á Fox-sjónvarpsstöðinni að forsetinn hafi rætt um náðunarvald sitt á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í síðustu viku. Scaramucci segir forsetann samt ekki þurfa að nota það.
„Það er enginn í kringum hann sem þarf á náðun að halda,“ sagði Scaramucci. „Hann var bara að tala um náðunarvaldið almennt.“
Scaramucci sagði einnig í þætti á CNN-sjónvarpstöðinni að forsetinn væri ekki sannfærður um að Rússar hafi haft áhrif á kosningarnar, jafnvel þó leyniþjónusta og lögregluyfirvöld telji að það hafi raunverulega verið þannig. „Hann sagði mér: Hey, þú veist, þetta er kannski gerðu þeir þetta, kannski gerðu þeir þetta ekki,“ segir Scaramucci um orð forsetans.
Öldungadeildarþingmaður repúblikana, Rand Paul, telur allar líkur á að Trump geti náðað sjálfan sig en segir það vera vonda hugmynd. „Ég mundi vara hvern sem er í hinum pólitíska heimi við að náða sjálfan sig eða fjölskyldumeðlimi sína.“
Donald Trump yngri, sonur forsetans, hefur sjálfur viðurkennt að hafa átt í samskiptum við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. Hann deildi tölvupóstsamskiptum sínum um fund með rússneskum lögmanni sem sagðist eiga skemmandi upplýsingar um Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, á Twitter.
Enn hefur ekki verið gefin út ákæra í þessu máli en lögspekingar telja fundinn geta hafa verið í andstöðu við lög.