Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur tilkynnt að hann ætli ekki að staðfesta umdeild lög sem myndu veita ráðherrum vald til þess að reka og skipa dómara án þess að bera það undir þing eða þjóð.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.
Löggjöfinni sem samþykkt var í pólska þinginu hefur verið mótmælt harðlega í Póllandi undanfarna daga. Nýju lögin hafa einnig vakið gagnrýnisraddir í Brussel því Evrópusambandið telur lögin ekki lýðræðisleg.
Evrópuráðið hefur meðal annars hótað því að beita viðskiptaþvingunum á Pólland, sem er aðili að ESB, ef lögin yrðu staðfest. Forseti Evrópuráðsins er Donald Tusk, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, en hann hefur varað við því að hægrisinnuð stjórnvöld í Varsjá jaðarsetji sig í Evrópu.