Bresk stjórnvöld hyggjast banna sölu allra nýrra bensín- og dísilbíla frá árinu 2040 í von um að það muni bæta loftgæði í breskum borgum og í nágrenni vega.
Sérstakri áætlun verður fylgt til þess að bæta loftgæði í Bretlandi enda er samfélagslegur kostnaður talinn gríðarlegur vegna slæmra loftgæða sem hafa áhrif á heilsu fólks. Talið er að töpuð framleiðni samfélagsins í Bretlandi nemi um 2,7 milljörðum punda á ári vegna mengunar. Slæm loftgæði eru jafnframt ein helsta umhverfishættan sem veldur heilsutjóni hjá fólki.
Frá þessu er meðal annars greint á vef breska dagblaðsins The Guardian. Víða í Bretlandi hafa loftgæði ítrekað mælst verri en staðlar Evrópusambandsins leyfa
Í tilkynningu sögðust bresk stjórnvöld vera staðráðin í að taka til hendinni í þessum málaflokki og ná árangri á sem skemmstum tíma. Sveitarfélög í Bretlandi munu hljóta samtals þrjá milljarða í fjárframlög til þess að mæta kostnaði sem fylgir loftgæðaáætluninni.
Til greina kemur að skilgreina sérstök „hreinloftssvæði“ þar sem bílstjórar eru rukkaðir ef þeir aka mengandi bílum. Slíkt er hins vegar talið vera lokaúrræði enda er hætta á að bifreiðareigendur mótmæli slíkum refsiaðgerðum. Slíkt yrði ekki ósvipað gjöldum sem munu falla á eldri bíla sem aka í London frá og með 23. október á þessu ári. Borgaryfirvöld þar hafa ákveðið að rukka alla bíla sem menga of mikið (flestir eldri en árgerð 2006) um 10 pund á degi hverjum.
Bensín- og dísilbílabann ríkisstjórnar Theresu May er í svipuðum anda og nýjar reglur sem umhverfisráðherrann í ríkisstjórn Emmanuel Macron í Frakklandi kynnti nýverið. Þar verður sala nýrra bensín- og dísilbíla bönnuð frá árinu 2040.
Áætlun breskra stjórnvalda verður kynnt í dag.