Alexander Dobrindt, samgönguráðherra Þýskalands, tilkynnti í gær að innkalla ætti alla þriggja lítra Porsche Cayenne dísilbíla þar sem útblásturskerfi bílsins sé hugsanlega ólöglegt.
Umboðsaðili Porsche telur líklegt að þeir þurfi að innkalla 40 slíka bíla á Íslandi.
Í gær tilkynnti Porsche að óreglulegur vélarbúnaður hafi verið fundinn í innra mengurnareftirliti bílanna. Í kjölfar þess sagðist bílaframleiðandinn hafa samþykkt að innkalla alla bílanna sem gætu haft þennan vélarbúnað. Þetta kom fram á vef Reuters.
Samgönguráðherra Þýskalands, Alexander Dobrint, tilkynnti svo opinberlega að allir Porsche Cayenne dísibílar með þriggja lítra Euro 6 vél sem keyptir hafa verið í Evrópu skuli skilað tilbaka til viðeigandi umboðs. „Framleiðandinn mun að sjálfsögðu bera 100% kostnaðarins,“ bætti Dobrint við. „Það er engin útskýring af hverju hugbúnaðurinn er svona í þessum bíl.“
Framleiðandi bílanna, Porsche AG, er í eigu Volkswagen, en fyrirtækið gerðist sekt um ófullnægjandi hugbúnað fyrir tæpum tveimur árum síðan. Málið var Volkswagen kostnaðarsamt, en talið er að fyrirtækið hafi tapað að jafnvirði 500 milljarða króna af því.
Samkvæmt Dobrint eru um 7.500 bílar af þessari tegund skráðir í Þýskalandi og 22.000 í Evrópu allri. Ekki er hins vegar vitað hversu margir af þessum bílum séu enn í bílasölum.
Í samtali við Kjarnann sagði starfsmaður Bílabúðar Benna, umboðsaðila Porsche á Íslandi, að um það bil 40 Porsche Cayenne dísílbílar með þriggja lítra Euro 6 vél hafi verið seldir af þeim. Hins vegar sé ekki vitað hvort allir þeirra séu með umræddan hugbúnaðargalla þar sem vöntun sé á frekari upplýsingum. Starfsmaður umboðsins bætir við að líklegt sé að fleiri bílar verði innkallaðir hér á landi þar sem margir kjósi að kaupa bíl erlendis frá og flytja hann inn sjálfir.