Rússneska leyniþjónustan reyndi að njósna um Emmanuel Macron, forseta Frakklands, á meðan kosningabaráttunni fyrir frönsku forsetakosningarnar stóðu yfir í vor, samkvæmt heimildum Reuters sem greinir frá þessu.
Leyniþjónustan notaði Facebook til þess að komast í stafræn tengsl við kosningabaráttu Macrons og stofnaði tugi gerviprófíla til þess að tengjast starfsfólki kosningabaráttunnar. Bandaríska samfélagsmiðlafyrirtækið Facebook komst á snoðir um athæfið og lokaði öllum gervireikningunum.
Emmanuel Macron var kjörinn forseti Frakklands í tveimur umferðum forsetakosninga í maí. Í seinni umferðinni fékk hann mun fleiri atkvæði en Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar (f. Front National).
Facebook sagðist hafa lokað nokkrum gervireikningunum í apríl sem höfðu verið að dreifa fölskum upplýsingum um frönsku kosningarnar. Þá hvar hins vegar ekki sagt frá tilraunum til þess að njósna um Macron.
Rússnesk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að hafa reynt að beita sér í kosningabaráttunni í Frakklandi með stafrænum árásum og gagnalekum. Bandaríska leyniþjónustan sagði í maí að hún hefði upplýsingar um að tölvuþrjótar með tengsl við rússnesk stjórnvöld hefðu átt sök á stafrænum árásum en gat ekki sannað það með haldbærum sönnunargögnum að rússnesk stjórnvöld stæðu þar að baki.
Lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum eru sannfærð um að Rússar hafi haft áhrif á kosningabaráttuna fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári. Talið er að sami hópur tölvuþrjóta hafi verið að verki í Frakklandi. Sá hópur er sagður vera hluti af GRU, sérþjálfaðri njósnaherdeild rússneska hersins.
Talið er að Facebook hafi lokað allt að 70.000 reikningum í tengslum við frönsku forsetakosningarnar í vor. Njósnir rússa hafi gengið út á að þykjast vera vinir vina Macrons á Facebook sem reyndu að viða að sér upplýsingum um frambjóðandann og framboðið.
Sérfræðingar Facebook telja Rússana ekki hafa náð að grafa nógu djúpt til þess að fá fólk til að sækja njósnaforrit eða láta af hendi viðkvæmar upplýsingar.